Fimmtudagur 5. október 2000

279. tbl. 4. árg.

Ríkisútvarpið sýnir þessar vikurnar í sjónvarpi sínu, auglýsingu sem ætlað er að vera áminning til þeirra sem skirrast við að greiða svonefnd afnotagjöld. Aðalsöguhetja auglýsingarinnar er maður nokkur sem leggur það í vana sinn að setjast að, kvöldlangt, í görðum hinna skilvísu. Þar mundar hann sjónauka sem hann svo beinir inn um glugga, á sjálfa þjóðareignina sem þar situr og baðar nærstadda í bláma sínum. Og frá því er greint, í auglýsingunni, að svo maðurinn ekki missti af gullkornum þeim sem af vörum fréttamanna ríkissjónvarpsins falla, þá sigldi hann til Kaupmannahafnar og sótti þar námskeið, um hálfs árs skeið, í varalestri. Auk þess segir frá því, í auglýsingunni, að lögreglan hafi handtekið hann og fært burt í lögreglubifreið og að á þeim stundum hafi hann þurft að þola þá niðurlægingu að vera leiddur framhjá hinum skilvísu, sem störðu á hann með fyrirlitningu, börn sem fullorðnir. Ekki hefur enn verið upplýst hvert hann var leiddur og eru afdrif hans því ókunn þegar þetta er ritað.

Að efni til svipar þessari auglýsingu mjög til annarrar auglýsingar sem ríkissjónvarpið sýndi í sama tilgangi fyrir nokkrum misserum. Þar var sýndur maður sem mótmælti afnotagjöldunum við starfsmenn innheimtudeildar en sneri frá villu síns vegar þegar stjörnur ríkisútvarps og -sjónvarps áttu tal við hann. Lesendur rekur eflaust minni til þessarar auglýsingar ef rifjað er upp að það sem varð til að snúa manngarminum var geðshræring sem hann komst í eftir að hafa rætt við leiklistarráðunaut ríkisútvarpsins.

Í eldri auglýsingunni er andstæðingur afnotagjaldanna, ístöðulaus einfeldningur sem vitkast af umgengni við starfsmenn ríkisútvarpsins og greiðir að lokum afnotagjaldið með glöðu geði.

Í nýrri auglýsingunni er andstæðingurinn hinsvegar orðinn að glæpamanni sem vílar ekki fyrir sér að rjúfa friðhelgi heimila skilvísra notenda með þaulskipulögðum hætti í þeim tilgangi einum að skjóta sér undan greiðslu afnotagjaldanna. Ennfremur er dregin upp sú mynd af manninum að hann sé haldinn þráhyggju á háu stigi sem birtist í því að hann ver sex mánuðum á skólabekk í Kaupmannahöfn í þeim tilgangi einum að fullnuma sig í varalestri fyrir vanskilafólk. Hann er sumsé ekki bara glæpamaður heldur er hann geðveikur glæpamaður.

Það er ekki að undra að ríkisútvarpið dragi upp slíka mynd af andstæðingum sínum og þeim sem ekki kjósa að greiða því fé. Í föðurlandi ríkisútvarpsins tíðkaðist það nefnilega löngum að dæma þá geðsjúka eða glæpamenn, nema hvorttveggja væri, sem fældust ríkisfaðminn. Aukinheldur var börnum þar kennt að sýna þeim fyrirlitningu sem dirfðust að spyrna fæti við hinni miklu byltingu menningarinnar.

Í hinum frjálsa heimi þykir hvorttveggja dónaskapur, að henda gaman að veiku fólki og að lítillækka þá sem kjósa að snúa viðskiptum sínum annað.