Ýmsir þeir sem börðust gegn svonefndum matarskatti, þ.e. virðisaukaskatti á matvæli, virtust átta sig á því að það eru ekki alltaf þeir sem skila sköttunum sem greiða þá. Matvöruverslanir skila ríkinu virðisaukaskatti af því sem þær selja en það eru neytendur sem greiða a.m.k. hluta skattsins. Enn skýrara dæmi um þetta eru skattar á áfengi. Áfengiseinkasala ríkisins, innflytjendur og framleiðendur sjá um að innheimta og skila sköttunum til ríkisins en það er þyrstur almenningur sem á endanum greiðir skattana.
Auðlindanefnd ríkisins sendi frá sér plagg um daginn. Verði farið eftir tillögunum sem þar eru munu verða lagðir á nýir skattar á allt milli himins og jarðar. Ef marka má stuðningsmenn skattanna hafa þeir þá einstöku eiginleika að þeir hækka alls ekki vöruverð til neytenda. Nýr skattur á sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvar á að skila sér til „þjóðarinnar“ en ekki er gert ráð fyrir að þessi nýi skattur muni hækka áskriftargjöld eða draga úr gæðum dagskrár útvarpsstöðvanna. Fyrirtæki í greininni munu sem sagt bara taka skattinn á sig án þess að leita leiða til að koma honum yfir á neytendur. Nýr skattur á farsímafyrirtæki á einnig að skila sér til almennings, fólksins í landinu, réttmætra eigenda, þjóðarinnar allrar, barna og barnabarna og síðast en ekki síst í sérstakan þjóðarsjóð. Gert er ráð fyrir að símafyrirtækin taki hina auknu skatta á sig með glöðu geði og sjái ekki ástæðu til að deila þeim með þjóðinni í hærri símgjöldum. Nýir skattar á orkufyrirtæki munu heldur ekki kynda undir hækkunum á rafmagni og hitaveituvatni að áliti auðlindanefndar. Til að tryggja að þessi skattheimta gangi snurðulaust fyrir sig leggur nefndin til að ríkið kasti eign sinni á hverja þá smugu sem einhver kann að finna til hagnýta gæði jarðar. Ef einhver dirfist að breyta gagnslausum náttúrufyrirbrigðum í gagnlegan hlut skal hluturinn þjóðnýttur í hvelli. Þeir sem trúa því að skattheimta á náttúruauðlindir hafi engin áhrif á verð til neytenda trúa því líklega einnig að slík þjóðnýting og skattheimta í framhaldi af henni hafi engin áhrif á það hversu mikið menn leggja á sig til að finna nýjar leiðir til að hagnýta náttúruna.
Svo þarf að útdeila afrakstrinum sem runnið hefur í þjóðarsjóð hinna réttmætu eigenda. Vafalaust eru ýmis góð mál sem verðskulda framlög úr sjóðnum. Verða margar hugmyndir kallaðar. Líklega ekki mikið færri en fólkið í landinu eða svona hér um bil jafnmargar og þeir sem hlusta á útvarp, nota síma og rafmagn og kynda híbýli sín. Ef til vill væri því einfaldast og réttast að niðurgreiða útvarp, sjónvarp, síma og orku, með því sem innheimtist af þeim í þjóðarsjóðinn!