Laugardagur 9. september 2000

253. tbl. 4. árg.

Sá stórmerki þungavigtarmaður, Alfreð Þorsteinsson, heldur enn áfram að úttala sig um þjóðmálin. Venju samkvæmt einbeitir hann sér að því að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn og allt sem honum kann mögulega að tengjast, enda hefur lengi virst sem hann leggi svo mikið hatur á flokkinn að hann gæti sennilega fengið starf á ritstjórn Dags án annarra meðmæla. 

Nú þykir Alfreð sem hinn illi flokkur hafi troðið „sínum mönnum“ í helstu stofnanir þjóðfélagsins og væri vissulega illt ef satt væri. Allir hljóta að vera sammála um að sjálfstæðismenn eiga helst ekki að skipa embætti eða sinna störfum sem máli skipta og því er rétt að huga að þessum alvarlegu ásökunum. Alfreð nefndi sérstaklega nýlega skipun á dómara við Hæstarétt, „lögregluna“ og „Landsvirkjun“ og þá er rétt að líta til þessara pósta. Nýskipaður hæstaréttardómari, Árni Kolbeinsson, hefur aldrei svo vitað sé starfað á nokkurn hátt að stjórnmálum. Hann hefur aldrei greint frá stjórnmálaskoðunum sínum opinberlega en látið sér nægja að starfa sem ráðuneytisstjóri allt frá því Halldór Ásgrímsson skipaði hann til slíks embættis árið 1985. Árni er hins vegar frægur meðal íslenskra lögfræðinga fyrir að hafa tekið hæsta lögfræðipróf Íslandssögunnar þó Alfreð Þorsteinsson búist auðvitað ekki við því að á slíka hluti sé horft við mannaráðningar.

Ekki er gott að segja hvað átt er við með starfinu „Lögreglan“. En innan hennar eru tvö áhrifastörf. Mikilvægast mun vera embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Það skipar nú mætur maður, Böðvar Bragason, fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins, skipaður af Jóni Helgasyni frá Seglbúðum. Hitt embættið er embætti ríkislögreglustjórans. Núverandi ríkislögreglustjóri hefur engin afskipti haft af stjórnmálum og ekki veit Vefþjóðviljinn hvað eða hvort hann kýs. Og gaman væri reyndar að vita hvað einn stjórnmálaflokkur getur grætt á því að einn af kjósendum hans skipi slíkt starf. En kannski sér Alfreð Þorsteinsson einhverja möguleika á því að nýta sér störf sem þessi.

Þriðja atriðið sem Alfreð nefndi var „Landsvirkjun“. Þar eru æðstir manna Friðrik Sophusson forstjóri sem vissulega er sjálfstæðismaður og Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, skipaður af Finni Ingólfssyni, þáverandi iðnaðarráðherra. Það var svo undir forystu Jóhannesar Geirs sem Friðrik var ráðinn forstjóri Landsvirkjunar. Aðaleigendur Landsvirkjunar eru sem kunnugt er ríkissjóður og Reykjavíkurborg. Hafi Alfreð Þorsteinsson því eitthvað að athuga við mannaráðningar hjá Landsvirkjun þá ætti hann að snúa sér til sjálfstæðismannanna Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra.

Það er hins vegar eitt starf sem Alfreð Þorsteinsson gleymdi að nefna. Það er starf forstjóra Sölunefndar varnarliðseigna. Síðast þegar Vefþjóðviljinn gáði þá sat þar maður að nafni Alfreð Þorsteinsson. Upphaflega ráðinn á utanríkisráðherraárum Einars Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.