
Loksins fengu bíleigendur nóg. Búið er að pína almenning býsna lengi með bensínsköttum, en loks virðist sem fólki sé ekki sama lengur. Um allan heim mótmælir fólk háu eldsneytisverði, hvort sem það er í Frakklandi, Tælandi, Bangladess, Bretlandi eða Ástralíu. Hvarvetna er almenningur búinn að fá sig fullsaddan af háu verði þessarar nauðsynjavöru. Hér á landi hafa yfirvöld brugðist við óánægju fólks með því að breyta álagningu bensíngjalds, en án þeirrar breytingar væri bensínið enn hærra en nú er – og þykir mönnum þó nóg um. Ríkisstjórnir hafa víðar lækkað bensínskattana því oft er ekki um annað að ræða en lækka skattana eða horfa upp á fjöldagjaldþrot í þeim greinum sem mest eru háðar eldsneyti.
Bensínskattur hefur verið réttlættur með því að hann fari til vegagerðar og hann sé því í þágu ökumanna! Þessi röksemd heyrist víðar en hér á landi og það er víðar en hér sem hún fær ekki staðist. Bensínskatturinn er sérlega ranglátur skattur því bensín er flestu fólki afar mikilvægt og erfitt að vera án þess eða draga úr neyslu þess. Aka þarf í og úr vinnu, keyra börnin í skólann, fara búðir, og svo framvegis. Þeir sem þurfa stóra bíla, t.d. fólk með mörg börn, lenda líka verr í þessum skatti en aðrir. Réttlætismál er að sérstakur bensínskattur verði afnuminn og fólki leyft að aka um án slíkrar refsingar.
Í þessu sambandi er ekki úr vegi að minnast félaga Össurar. Össur Skarphéðinsson og hans fólk barðist sérstaklega fyrir því fyrir rúmu ári að skattar á bensín yrðu hækkaðir. Hefði Össur og Samfylkingin mátt ráða má leiða líkum að því að bensínlítrinn væri í dag á um 120 krónur. Hvernig væri að fjölmiðlar spyrðu Össur að því hvort hann sé enn þeirrar skoðunar að brýna nauðsyn beri til að hækka bensínverð?