Þriðjudagur 5. september 2000

249. tbl. 4. árg.

Eitt af því sem menn reyna stundum að hafa á móti markaðskerfinu, er að í því hafi stór og öflug fyrirtæki svo sterka stöðu að jafna megi við einokun. Að þau ein hafi burði til að grípa tækifæri sem gefast en minni fyrirtæki verði þar alltaf að láta í minni pokann. Slíkar kenningar skjóta reglulega upp kollinum og virðist litlu máli skipta þó reynslan sýni að þær eiga ekki við rök að styðjast. Staðreyndin er þvert á móti sú, að ef aðgangur nýrra fyrirtækja eða einstaklinga að markaði er ekki beinlínis bannaður með lögum – og sem dæmi um það mætti hafa ýmis lög um sérleyfi og lögvernduð starfsheiti – þá munu ætíð nýir menn vera reiðubúnir að hefja samkeppni við þau fyrirtæki sem ekki standa sig vel í rekstrinum.

Þetta á einnig við þó mikill munur sé á efnum og aðstæðum fyrirtækja. Til gamans má hér minnast á „heimsmótið í skák” sem fram fór í Kópavogi nú í vor. Mótið var sýnt í sjónvarpi og vakti mikla athygli, ekki síst vegna þátttöku hins fræga meistara, Garrys Kasparovs. Í nýlegt hefti af tímaritinu Skák, 4. tbl. 50. árg., ritar Áskell Örn Kárason, forseti Skáksambands Íslands, um undirbúning mótsins og segir meðal annars:

„Eftir að stóru sjónvarpsstöðvarnar tvær höfðu hikað við að taka að sér útsendingar frá mótinu og borið við kostnaði, var samið um útsendingar við unga og framsækna stöð, Skjá einn. Þótt súrt sé í broti fyrir áhugamenn á landsbyggðinni að missa af sendingum frá mótinu, var þetta að öðru leyti góð ráðstöfun. Kraftur og áhugi einkenndi störf þeirra Skjáseinn-manna og þeir sýndu svo ekki varð um villst að þeir réðu vel við verkefni og skiluðu því með sóma. Víst er að við skákmenn væntum okkur mikils af samstarfi við þá í framtíðinni, því þar á bæ átta menn sig á því hversu feykigott sjónvarpsefni skákíþróttin getur verið.“