Sveitarstjórnamenn verða afar sárir þegar bent er á að þeir eyði allt of miklu af skattfé almennings. Þeir vilja fá meira skattfé í sinn hlut til að geta haldið áfram öllum hinum „nauðsynlegu“ framkvæmdum og allri þeirri „ómissandi“ þjónustu sem boðið er upp á. Ef marka má þá sem yfirleitt tala fyrir hönd sveitarstjórnarmanna er hvergi smuga til að spara og hvergi gæluverkefni sem má missa sín. Enginn þrýstihópur hefur náð fram óréttmætri kröfu um eyðslu á almannafé og hvergi væri hugsanlegt að hætta við framkvæmd án þess að óbærilegt ástand skapaðist. Sá sem trúir þessum kenningum sveitarstjórnarmannanna má gjarnan setja sig í samband við Vef-Þjóðviljann, því Vef-Þjóðviljinn veit af manni sem vill selja gríðarlega illa ryðgaðan 15 ára gamlan austur-evrópskan smábíl á hálfa milljón.
En að vísu má virða sveitarstjórnarmönnum eitt til vorkunnar og það er kröfugerð ýmissa hópa um aukin útgjöld. Ýmsir virðast orðnir svo vanir því að ríki og sveitarfélög taki að sér alla mögulega þjónustu og framkvæmdir, að þegar eitthvað vantar er hlaupið þangað og heimtað fé í verkið. Eitt nýlegt dæmi er krafa foreldra um að haldið yrði áfram gangbrautarvörslu fyrir skólabörn við skóla einn í Reykjavík. Nú er gangbrautarvarsla svo sem ekki ný af nálinni, en það er engin ástæða til að krefjast þess af hinu opinbera að það veiti slíka þjónustu. Eðlilegt er að foreldrar hafi áhyggjur af börnum sínum í umferðinni, en það er ekki þar með sagt að eðlilegt sé að sveitarfélögin greiði fyrir gangbrautarvörslu. Foreldrar eins og aðrir verða að átta sig á að aukin krafa um þjónustu hins opinbera kallar á hærri skatta. Hið opinbera hefur þegar þanist allt of mikið út, vilji menn aukna þjónustu er eðlilegt að þeir greiði fyrir hana sjálfir.