Helgarsprokið 3. september 2000

247. tbl. 4. árg.

Endur fyrir löngu tók ríkið upp á því að bjóða út byggingar á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og öðrum stofnunum heilbrigðiskerfisins. Var þetta ekki síst gert til að nýta sem best það takmarkaða fé sem til umráða er á hverju ári úr ríkissjóði. Um þetta virðist bærileg sátt og fáir sem leggja til að ríkið ráði til sín smiði og aðra iðnaðarmenn og byggi sjálft það húsnæði sem til þarf. Enda telja menn að með því að fela einkaaðilum þessar framkvæmdir megi nota það fé sem sparast til að bæta þjónustan við sjúka.

Hið sama ætti að gilda um aðra þætti heilbrigðismála en smíði húsnæðis undir þau. Og um það eru raunar ýmis dæmi. Einkareknar lækna-, tannlækna- og sjúkraþjálfunarstofur eru víða og sérhæfð heimahjúkrun og öldrunarþjónusta er einnig rekin af einkaaðilum. Yfirleitt er hluti eða allur kostnaður sjúklings af viðskiptum við þessar einkareknu stofnanir greiddur af Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt umsaminni gjaldskrá. Þó menn kunni að vera þeirrar skoðunar að ríkið eigi að tryggja öllum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þýðir það alls ekki að menn verði þar af leiðandi að álíta að ríkið hljóti að eiga öll sjúkrahús landsins og vera vinnuveitandi nánast allra sem í þessum geira starfa. Það er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á því hver greiðir fyrir þjónustuna og hver veitir hana.

Í dagblaðinu Degi á föstudaginn birtist viðtal við Þorkel Bjarnason röntgenlækni undir yfirskriftinni: „Einkavæðing í þágu sjúklinga“ en hann kynnti hugmyndir sínar um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á aðalfundi Læknafélagsins um síðustu helgi. Þorkell telur bæði nauðsynlegt að endurvekja sjúkratryggingakerfið til að fólk sjái hvað heilbrigðisþjónustan kosti og geri sér grein fyrir því að hún er ekki ókeypis. „Með því að greiða sín iðgjöld og láta sjúkratryggingakerfið sjá um kostnaðinn sér fólk miklu betur hver hann er“, segir Þorkell. Og Þorkell setur einnig spurningamerki við það að sjúkratryggingakerfið greiði kostnað vegna bifreiðaslysa. Eðlilegra sé að bifreiðatryggingar beri þann kostnað.

Í Morgunblaðinu á föstudaginn var grein eftir Kartínu Fjeldsted lækni og Ástu Möller hjúkrunarfræðing og þingmenn Reykjavíkinga. Í greininni benda þær á að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segi að skoða beri breytt rekstrarform á heilbrigðisþjónustunni og skilið sé á milli ríkisins sem kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu. Í greininni segir svo: „Á undanförnum árum hafa fjölmargir hópar heilbrigðisstarfsmanna lýst áhuga sínum á að takast á við rekstur einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar. Íslenzkt heilbrigðisstarfsfólk er vel menntað og hefur til að bera sterkan vilja, frumkvæði, hugvit og sjálfstæði til að skipuleggja og veita tiltekna heilbrigðisþjónustu í samræmi við þekkingu sína og kröfur heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma. Við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala nýverið hafa skapazt ótal mörg tækifæri til að brjóta upp starfsemi sjúkrahússins í smærri einingar og tala ákvörðun um að færa rekstur einstakra eininga í hendur fagfólks, skv. sérstökum samningi stjórnar sjúkrahússins eða yfirvalda þar um.“ Katrín og Ásta lýsa einnig hugmyndum um að starfsfólk heilsugæslustöðva taki rekstur þeirra í sínar hendur.

Einkavæðing hefur oft mætt andspyrnu á ólíklegustu sviðum þótt hún leiði jafnan til betri þjónustu og lægra verðs í kjölfar samkeppni og spari hinu opinbera ómælda fjármuni. Heilbrigðismál eru frekasti útgjaldaliður hins opinbera. Hvergi ríður jafn mikið á að viðskiptavinurinn fái góða þjónustu og hjá sjúkrastofnunum. Það er því ef til vill ekki of mikið sagt að segja að hvergi sé eins brýnt að hleypa einkarekstri að og í heilbrigðismálum.