Þriðjudagur 22. ágúst 2000

235. tbl. 4. árg.

Þau tíðindi urðu síðastliðinn föstudag, að DV náði æsiviðtali við sjálfan Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúa. Og þegar Alfreð talar þá hlustar þjóðin. Enda voru stórir hlutir að gerast: Alfreð Þorsteinsson spáði því að næsta ríkisstjórn yrði líklega ekki tveggja flokka stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Eftir þennan úrskurð Alfreðs hafa fjölmiðlamenn að vonum verið spenntir og rætt málið fram og til baka við Össur Skarphéðinsson. Úr þeim umræðum og öðrum hefur einkum fengist sú niðurstaða að Alfreð Þorsteinsson sé einstaklega mikill þungavigtarmaður og vandséð hvernig nokkur ríkisstjórn geti staðið af sér orð slíks manns.

Í viðtalinu var Alfreð spurður um fleira en væntanlegar ríkisstjórnir. Hann var meðal annars spurður hvort hann gæti hugsað sér að „fara á þing“ og hvort hann gæti nú hugsað sér að verða varaformaður Framsóknarflokksins. Alfreð sagði að það gæti vel verið að hann fari á þing en hann væri nú „fyrst og fremst að hugsa um borgarmálin“. Hann sagðist hins vegar ekki ætla að taka að sér varaformennsku í flokknum þó hinu væri vitaskuld ekki að leyna að „þó nokkuð margir“ hefðu rætt það mál við hann.

Þó Alfreð hugsi fyrst og fremst um borgarmálin þá fór hann nú reyndar í prófkjör Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra. Þegar blaðamenn minntust á það prófkjör við hann þá sagði Alfreð að þar hefði hann sjálfur stutt Finn Ingólfsson í 1. sætið þó hann hefði reyndar fundið fyrir „mikilli óánægju meðal framsóknarmanna“ með Finn. Sá stuðningur Alfreðs hefur líklega verið alger leynistuðningur því Alfreð Þorsteinsson gaf reyndar sjálfur kost á sér í 1.-4. sæti í prófkjörinu. Hin mikla óánægja flokksmanna með Finn hefur svo líklega líka verið samskonar leynióánægja því Finnur Ingólfsson varð efstur í prófkjörinu en þungavigtarmaðurinn Alfreð Þorsteinsson varð næst neðstur.

Og það er reyndar svo furðulegt að hinn mikli þungavigtarmaður, Alfreð Þorsteinsson, er ekki manna sigursælastur þegar talið er úr kjörkössunum. Í síðasta prófkjöri R-listans fékk hann til dæmis ekki eins mikið af atkvæðum og búast mátti við af slíkum þungavigtarmanni. Hann fékk til dæmis talsvert færri atkvæði en varaborgarfulltrúinn núverandi, Árni Þór Sigurðsson, og ef ekki hefði viljað svo vel til, að búið var að semja um það fyrirfram að frambjóðendum yrði ekki raðað á listann í atkvæðaröð, ja þá hefðu borgarbúar misst af því að hafa þungavigtarmanninn Alfreð Þorsteinsson í öllum helstu nefndum og ráðum.

Í gær voru tveir menn skotnir til bana í Belfast. Fréttastofa íslenska ríkisútvarpsins greindi frá þessu og tók fram að „íbúar Belfast“ teldu að þetta ódæði væri „að rekja til ósættis tveggja hópa öfgasinnaðra mótmælenda“. Þá vita menn það. „Íbúar Belfast“ eru á einu máli um það. Eins og annað.