Mánudagur 21. ágúst 2000

234. tbl. 4. árg.

Þrír af fjórum frambjóðendum Demókrata og Repúblikana til varaforseta og forseta í Bandaríkjunum eru fylgjandi svo kölluðu ávísanakerfi í skólum, en með ávísanakerfi er átt við það fyrirkomulag að hið opinbera greiði tiltekna upphæð með hverjum nemanda til þess skóla sem valinn er. Aðalmálið er að valið um skólann er frjálst og samkeppni kemst á í menntakerfinu. Al Gore er auðvitað sá þessara fjögurra frambjóðenda sem hafnar ávísanakerfinu, en jafnvel hann sagði í ræðu í grunnskóla einum fyrr í þessum mánuði: „Ef ég væri foreldri barns sem gengi í miðborgarskóla, sem stæði sig ekki, … þá væri ég ef til vill líka stuðningsmaður ávísanakerfisins.“ Hann er bara svo lánsamur að þurfa ekki að hafa áhyggjur af menntun barna sinna og sér því ekki ástæðu til að gera raunverulegar endurbætur á menntakerfinu.

Í USA Today var í síðustu viku fjallað um ávísanakerfi í skólum. Rannsókn á tveimur opinberum ávísanakerfum og þremur einkakerfum sýnir að þetta fyrirkomulag hefur töluverða kosti. Í nýlegri skýrslu kemur fram að þeir sem lagt hafi mat á ávísanakerfin hafi verið sammála um að þau hafi bætt menntun, aðeins sé deilt um hversu mikið. En út af fyrir sig þarf enga rannsókn til að sjá að með því að foreldrar geti valið um skóla og skólar verði að keppa um nemendur þá muni menntunin batna. Skóli sem stendur sig ekki mun einfaldlega ekki fá nemendur og þar með mun hann ekki geta haldið áfram starfsemi. Ekki frekar en annars konar þjónustufyrirtæki sem bjóða lélega þjónustu.

Hér á landi hafa kostir einkaframtaksins nánast ekki verið nýttir í skólakerfinu og ljóst að miklir möguleikar eru á betri nýtingu fjármuna til að bæta menntun. Ríki og sveitarfélög geta hætt að eiga og reka skóla en fengið hverjum nemanda þess í stað ávísun, sem hann getur leyst út í þeim skóla sem hann og foreldrar hans telja að bjóði bestu menntunina. Þeir sem eiga og reka skóla í slíku kerfi geta verið kennarar og skólastjórar, foreldrar, almennir fjárfestar eða blanda af þessu öllu. Mikilvægast er að koma skólunum úr höndum ríkis og sveitarfélaga og að leyfa foreldrum að velja börnum sínum þá menntun sem þeir telja henta best.