Fyrir skömmu kom út á vegum Fiskifélagsútgáfunnar bókin Hið sanna ástand heimsins eftir Björn Lomborg lektor í tölfræði við Árósaháskóla. Lomborg kom hingað til lands og flutti erindi um efni bókarinnar á þingi Fiskifélagsins eins og Vef-Þjóðviljinn hefur áður sagt frá. Í raun má segja að flest það sem ritað hefur um umhverfismál á íslensku á undanförnum árum og áratugum hafi verið spár um hugsanleg umhverfisvandamál í framtíðinni. Dæmi um slík heimsendaskrif má finna í bókum á borð við Vistfræði fyrir byrjendur 1982, Bjargið jörðinni 1991, Framtíð jarðar 1993 og nýlega í skýrslunni Vistvæn samgöngustefna fyrir Reykjavík og nágrenni 2000. Í öllum ritunum er rætt um yfirvofandi vistkreppu og ýmsir spádómar um auðlindaþurrð birtir. Í bók Lomborgs er hins vegar sjónum beint að þróun mála undanfarna áratugi og þróunin borin saman við spár umhverfisverndarsinna. Í stuttu máli má segja að niðurstaða Lomborgs, sem sjálfur var félagi í Greepeace áður en hann fór að kynna sér málin, sé að spádómar þeirra sem mest hafa fjallað um umhverfismál hafi verið byggðir á fölskum forsendum og því ekki ræst. Það er einnig niðurstaða Lomborgs að ólíklegt sé að þeir heimsendaspádómar sem nú eru vinsælastir muni heldur rætast.
Ágætt og nærtækt dæmi um þetta er hræðslan við súrt regn á níunda áratugnum. Í vinsælli danskri bók mátti lesa skelfilegar lýsingar á afleiðingum þess að „sýruplága fer um heiminn“ og flestir muna vafalaust eftir myndum í fjölmiðlum af lífvana trjám, fúlum vötnum og skemmdum byggingum. Viðamiklar rannsóknir voru gerðar á skógum, vötnum og byggingum vegna þessa „vandamáls“ en í ljós kom að súra regnið hafði ekki þau áhrif sem dómsdagsspámennirnir höfðu fullyrt. Nú heyrist vart minnst á þessa „sýruplágu“. Rannsókn á súru regni á vegum bandarískra stjórnvalda, National Acid Precipitation Assessment Program stóð yfir í áratug og kostaði 35 milljarða króna og í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að „mikill meiri hluti skóga í Bandaríkjunum og Kanada er ekki sýktur af skógardauða og ekki hafa fundist nein dæmi um að súrt regn hafi verið meginorsök skógardauða“. Evrópskar rannsóknir komust að sömu niðurstöðu.
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna er að vonum ekki ánægður með útkomu bókarinnar á íslensku enda er það stór liður í stefnu VG að telja fólki trú um að heimurinn sé á heljarþröm. Birtust tvær greinar eftir Steingrím í Morgunblaðinu í vikunni þar sem hann reynir að finna höggstað á bókinni. Í síðari greininni sem birtist í gær tekur hann fyrir sex atriði úr bókinni.
Í fyrsta lagi gagnrýnir Steingrímur Lomborg fyrir að hafa ekki nægar áhyggjur af fólksfjölgun í heiminum en eins og Lomborg sýnir fram á í bók sinni hefur hægt mjög á fólksfjölgun að undanförnu og fæða hefur lækkað linnulítið í verði vegna meiri aukningar framboðs en eftirspurnar. Vissulega býr hluti fólks við skort en það er ekki vegna umhverfisvandamála eða fæðuskorts heldur vegna þess að fólkið býr að stjórnarfar sem menn eins og Steingrímur hafa verið hallir undir eða stríðsátök. Það er til næg fæða handa öllum og hún kæmist til fleiri en í dag ef stjórnarfar væri ólíkara því sem Steingrímur óskar sér. Þótt Steingrímur vari við fæðuskorti gagnrýnir hann einnig aukna verkaskiptingu í fæðuframleiðslu milli landa og telur það miður að ákveðin svæði einbeiti sér að þeirri ræktun sem þau henta best til og selji þær afurðir til annarra svæða og kaupi frá þeim það sem þar er ræktað. Draumurinn um sjálfþurftarbúskap lifir góðu lífi. Og Steingrímur segir svo: „Aukin matvælaframleiðsla hefur ekki komið til án fórna, heldur þvert á móti stórauknu álagi á umhverfið. Gríðarleg notkun tilbúins áburðar, skordýraeiturs, hormóna og lyfja, tilheyrandi mengun jarðvegs og lyfjaónæmi, stórauknar áveitur sem aftur valda vatnsskorti og seltumengun jarðvegs, skógareyðing í þágu akuryrkju, gríðarleg orkunotkun í vélvæddum landbúnaði, erfðabreytingar o.fl. o.fl. eru frádráttarliðir á kostnaðarhliðinni.“ Það er einmitt málflutningur af þessu tagi sem Lomborg gagnrýnir í bók sinni. Órökstuddar upphrópanir um „gríðarlega“ mengun hér og þar og allsstaðar eru helsta einkenni á ofsafengnum málflutningi umhverfisverndarsinna. Steingrímur nefnir ekki eitt raunverulegt dæmi um alla þessa mengun, hvað þá rannsóknir sem sýna fram á að einstök lönd, álfur eða heimurinn allur séu menguð á þennan hátt.
Í öðru lagi gagnrýnir Steingrímur Lomborg fyrir að benda á það með tölulegum staðreyndum að nægt vatn er til staðar á jörðinni. Það sé fyrst og fremst fátækt sem kemur í veg fyrir að fólk geti nálgast það en Steingrímur hefur einmitt stutt þá efnahagsstefnu sem heldur mönnum í fátækt. Hann vill til dæmis ekki leyfa fátækum þjóðum (né öðrum þjóðum) að flytja landbúnaðarafurðir sínar til Íslands svo þær geti efnast og keypt sér tækni til vatnsöflunar.
Í þriðja lagi er Steingrímur ósáttur við að Lomborg bendir bæði á að kenningar um svonefnd gróðurhúsaáhrif af manna völdum eru ekki reistar á traustum grunni og að spár um hækkun hita á jörðinni hafa ekki gengið eftir. Lomborg bendir einnig á að líklega er ódýrara að fást við afleiðingar hugsanlegar hlýnunar en að hætta bruna jarðefnaeldsneytis. Steingrímur viðurkennir raunar að það sé erfitt að spá fyrir um veðrið vegna hins „geysiflókna samspils margra þátta“ en vill engu að síður ekki hafa neina fyrirvara á kenningum um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum. Steingrímur heldur því jafnframt fram að Lomborg sé sá eini í heiminum sem efast um kenninguna og spyr: „Hvort Björn Lomborg einn viti betur?“ Steingrími til fróðleiks má benda á lista yfir 17 þúsund vísindamenn sem taka kenningunni ekki sem heilögum sannleik og hafa undirritað eftirfarandi áskorun til stjórnvalda í Bandaríkjunum: „Við hvetjum ríkisstjórn Bandaríkjanna til að hafna Kyoto samkomulaginu sem gert var í desember 1997 og öðrum áþekkum tillögum. Samkomulagið er slæmt fyrir umhverfið, hægir á vísinda- og tækniframförum og getur valdið heilsu og velferð fólks skaða. Engar haldgóðar vísindalegar staðreyndir benda til þess að útblástur koltvísýrings, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda af manna völdum valdi eða muni valda í næstu framtíð hörmulegum breytingum á andrúmsloftinu. Að auki bendir margt til þess að aukinn styrkur koltvísýrings á andrúmsloftinu geti verið hagstæður fyrir plöntur og dýr.“
Í fjórða lagi efast Steingrímur um að Lomborg hafi rétt fyrir sér um það að misskipting gæða í heiminum fari ekki vaxandi og fólk hafi það almennt betra og betra. Og „rök“ Steingríms eru vissulega í stíl við annan málflutning umhverfisverndarsinna en hann segir um spurninguna um hvort misskipting auðæfa fari vaxandi: „Þeir sem hafa áttað sig á stærðargráðu auðæfa Bills Gates annars vegar og heildarþjóðartekna margra fjölmennra Afríkuríkja hins vegar vita svarið.“ Engar tölur lagðar fram heldur fullyrt út frá einu dæmi sem er, eins og umhverfisverndarsinna er siður, fjarri því að gefa glögga mynd af ástandinu almennt.
Í fimmta lagi gagnrýnir Steingrímur Lomborg fyrir að benda á þá staðreynd að fólk hefur það betra í fátækrahverfum stórborga en úti í sveit. Í raun er Steingrímur þó ekki að gagnrýna Lomborg heldur allt fólkið sem yfirgefur „sveitasæluna“ og flytur til þéttbýlissvæðanna. Steingrímur veit betur hvað því er fyrir bestu. Og til að hafa allt í stíl nefnir Steingrímur að á dögunum hafi tugir manna grafist undir skriðu úr ruslahaugum í Manilla. Eitt dæmi er allt sem Steingrímur þarf til að alhæfa um ástandið.
Í sjötta lagi gagnrýnir Steingrímur Lomborg fyrir að láta „hjá líða að fjalla svo heitið geti um ýmis umhverfisvandamál sem á síðustu árum hafa valdið vaxandi áhyggjum. Má þar nefna uppsöfnun þrávirkra lífrænna efna.“ Í bók Lomborgs eru teknir tugir dæma af rangfærslum umhverfisverndarsinna en ekki er fjallað sérstaklega um þrávirk lífræn efni. Það er ekki hægt að segja annað en að Steingrímur sé samkvæmur sjálfum sér þegar kemur að því að nefna eitt dæmi og alhæfa út frá því. Greinar Steingríms um Hið sanna ástand heimsins eru ágætur vitnisburður um það sem haldið er fram í bókinni um málflutning hinna sjálfskipuðu umhverfisverndarsinna.