Miðvikudagur 16. ágúst 2000

229. tbl. 4. árg.

Því miður sáu afar fáir sér fært að hylla Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands þegar hann steig út á svalir alþingishússins eftir innsetningu í embætti um daginn. Svo fáir voru þeir að fjölmiðlar náðu þeim ekki á mynd. En í ræðu forsetans mátti heyra eftirfarandi boðskap: „Við megum hvorki láta glímuna um stundarhag né heldur þá misskiptingu lífsins gæða sem nú birtist okkur í vaxandi mæli kljúfa þjóðina smátt og smátt í andstæðar sveitir. Afskiptaleysi um hag þeirra sem minna mega sín má hér aldrei ná yfirhönd. Því verðum við að huga vel að vaxandi hættumerkjum um fátækt og bjargarleysi, einkum hjá þeim sem aldraðir eru, kynslóðinni sem vann Íslandi allt sem hún gat.“

Húsnæði telst án efa til lífsins gæða. Sumir eiga þó ekkert hús og aðrir eiga jafnvel aukahús sem þeir nota ekki sjálfir. Eins og forsetinn gat um í ræðu sinni megum við ekki láta vonina um stundargróða valda illindum. Frétt DV á fimmtudaginn þurfti því ekki að koma velunnurum forsetans á óvart en þar sagði: „Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefur krafist þess að leigjandi hans í raðhúsinu á Barðaströnd 5 á Seltjarnarnesi verði borinn út með lögregluvaldi. Útburðarkrafa forsetans var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag og má búast við úrskurði dómara á næstu dögum. Leigjandinn, 45 ára gömul kona sem býr í húsinu ásamt 18 ára dóttur sinni, má því búast við að þurfa að hverfa þaðan með pjönkur sínar áður en vetur gengur í garð fallist héraðsdómur á útburðarkröfu leigusalans, Ólafs Ragnars Grímssonar.“