Nútímalegi alþjóðasinninn Össur Skarphéðinsson hefur fundið sér nýjan óvin, Útlending. Útlendingur hefur þann óskaplega ókost að vera erlendur maður og ekki síður að hann er ekki Íslendingur. Þetta er auðvitað fáheyrt og því um að gera að bregða fæti fyrir hann svo sem unnt er. Útlendingur hyggst samkvæmt blaðafregnum kaupa hótel Valhöll á Þingvöllum og það getur auðvitað ekki gengið að áliti Össurar, því þá væri Valhöll í eigu Útlendings en ekki Íslendings, og það væri vissulega óskaplegt áfall fyrir Össur sem vill aukin samskipti við Útlendinga, en bara ekki ef í því felst að þeir eigi aukin samskipti við Íslendinga. Þess vegna dregur Össur ekki af sér í lýsingum á hættunni sem fram undan er og segir í samtali við DV: „Mér litist skelfilega á að Valhöll komist í hendur erlendra auðkýfinga.“ Skelfilega! Minna mátti það ekki vera, því Útlendingur er enginn aufúsugestur á Íslandi alþjóðasinnans Össurar. Að ekki sé nú talað um ef Útlendingur er auðkýfingur ofan á allt annað.
En það er víðar en í hótelum á Þingvöllum sem óæskilegt er að útlendingar sýni sig. Þeim er vissara að halda sig frá sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, því lög banna þátttöku þeirra í slíkum fyrirtækjum. Þetta veldur töluverðum vanda, því ef útlendingar mega ekki fjárfesta í sjávarútvegi koma þeir síður með eftirsótt „erlent fé“ sitt inn í landið. Þetta virðist þó litlu skipta þegar halda þarf þessu voðalega fólki frá landinu.
Í nýjasta markaðsyfirliti FBA er fjallað um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi – eða öllu heldur skort á henni. Þar er bent á ýmsa ókosti þess að leyfa útlendingum ekki að eiga í veiðum eða vinnslu hér á landi og að með slíkum lögum sé aðgangur fyrirtækja í þessum greinum að áhættufjármagni takmarkaður. Þá er nefnt að samstarf Verðbréfaþings Íslands við erlendar kauphallir, Norex-samstarfið, sem taka mun gildi í haust, muni takmarka viðskipti með öll félög sem eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum, ekki aðeins viðskipti með sjávarútvegsfyrirtækin sjálf. Þetta gæti þýtt, segir FBA, að afleiðingarnar yrðu þær að „þau íslensku félög sem hyggjast freista þess að notfæra sér bætt aðgengi að erlendu áhættufé með Norex-samstarfinu veigri sér við fjárfestingum í sjávarútvegi og jafnvel að einhver flutningur fjármagns verði úr greininni.“ Þessar skorður við erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi munu þó að áliti FBA ekki aðeins hafa áhrif í sjávarútveginum sjálfum, því hætt sé við að áhugi erlendra fjárfesta á íslenska markaðnum almennt minnki, og jákvæð áhrif af kauphallasamstarfinu verði þá minni en annars gætu orðið.