Laugardagur 5. ágúst 2000

218. tbl. 4. árg.

Í nýársávarpi sínu árið 1998 hélt Ólafur Ragnar Grímsson því fram að vegna svonefndra gróðurhúsaáhrifa af manna völdum yrði Ísland ísi lagt innan tíðar og óbyggilegt. Í þeirri ræðu skammaði hann einnig stjórnvöld, ekki síst þáverandi umhverfisráðherra, fyrir að undirrita ekki Kyoto bókunina sem kveður á um hömlur á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ekki er annað að sjá en að Ólafur Ragnar hafi endurtekið þessar umvandanir í ávarpi sínu 1. ágúst.

Ef að kenningar um að breytingar verði á veðurfari vegna útblásturs gróðurshúsalofttegunda eru réttar en um það eru mjög skiptar skoðanir gildir einu hvaðan útblásturinn kemur, það er heildarútblásturinn á jörðinni sem skiptir máli. Ef við Íslendingar skuldbindum okkur til að nýta ekki orku fallvatna til álframleiðslu þarf að framleiða álið annars staðar, líklega í einhverju þriðja heims landi en þau eru undanþegin Kyoto samkomulaginu. Þar er líklegt að orkan verði fengin með bruna kola sem gefa frá sér margfalt magn gróðurhúsalofttegunda.

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag er grein eftir Jóhann Má Maríusson aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar þar sem fer yfir stöðu Íslands gagnvart Kyoto bókuninni og segir: „Hin svokallaða Kyoto-bókun um losun gróðurhúsagasa út í andrúmsloftið, sem sumir Íslendingar telja að þjóð okkar eigi að beygja sig undir, er dæmigert plagg hins pólitískt mögulega! Hún er það plagg sem mögulegt reyndist að ná samkomulagi um á fundinum í Kyoto. Megingalli Kyoto-bókunarinnar er sá, að hún tekur ekki á kjarna vandamálsins sem er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. En andrúmsloft jarðar, hið eina andrúmsloft sem við jarðarbúar eigum, veit engan mun á losun í iðnríkjum og þróunarlöndum. Þróunarlöndin taka ekki á sig neinar umtalsverðar skuldbindingar með henni.“

Jóhann Már lýkur grein sinni með þessum orðum: „Þegar einnig er tekið tillit til þess að Íslendingar höfðu þegar fyrir árið 1990 gert hreinna fyrir sínum dyrum en flestar aðrar þjóðir og sjá nú fyrir u.þ.b. 70% af sínum orkuþörfum með endurnýjanlegum orkulindum sem er hærra hlutfall en hjá nokkurri annarri þjóð, sést hversu fráleitt það er Íslendingar sæti þeim ákvæðum um losun gróðurhúsagasa á Íslandi sem finna má í Kyoto-bókuninni.“