Engin ástæða er til að gera of lítið úr því að neysla fíkniefna getur haft slæm áhrif á neytandann. En ekki er heldur til fyrirmyndar að gera of mikið úr skaðsemi fíkniefnaneyslu. Þetta hefur þó verið tíðkað mjög þegar barist hefur verið gegn neyslunni. Fíkniefnaneysla getur verið slæm, jafnvel mjög slæm, en þegar upp kemst að of mikið er gert úr slæmum afleiðingum hennar hættir fólk að taka mark á réttmætum varnaðarorðum. Það er líklega meðal annars með þetta í huga sem tveir danskir læknar lýstu þeirri skoðun sinni í danska dagblaðinu B.T. í fyrradag, að afleiðingar neyslu e-taflna, eða alsælu, væru ýktar.
Annar læknanna, Preben Brandt, er jafnframt formaður Fíkniefnaráðs ríkisstjórnarinnar, og segist hann ekki hafa trú á rekja megi nokkurt dauðsfall í Danmörku beint til alsælunnar, þ.e. efnisins MDMA. Þessi yfirlýsing hans kemur í kjölfarið á umræðum um dauðsföll ungmenna vegna e-töfluneyslu í Danmörku.
Jacques Gauguin, sem er læknir á meðferðarstofnun, segir að alsæla hafi verið mikið rannsökuð og telur hann efnið álíka hættulegt og hass. Hann segir alsælu hafa minni áhrif á líkamann en áfengi. Áfengi drepi t.d. heilafrumur en það geri alsæla ekki. Hann er þeirrar skoðunar að ekki megi blanda umræðum um óhreinar e-töflur, þ.e. e-töflur sem aukaefnum hefur verið blandað í, saman við umræður um hreinar töflur. Gallinn við umræður um skaðsemi þessara efna er hins vegar sá, að meðan efnin eru bönnuð lenda margir neytendur í því að fá óhrein efni og það getur verið hættulegt. Best væri, telur Gauguin, ef neytendur gætu gengið úr skugga um hvort efnin sem þeir eru að taka séu hrein.
Um bann við fíkniefnum segir Preben Brandt að bönnuð efni séu ævinlega hættulegri en þau sem leyfð eru, því ekki sé hægt að hafa eftirlit með þessum bönnuðu. Af þessum sökum sér hann fulla ástæðu til að taka umræðuna um lögleyfingu efnanna alvarlega og segist ekki álíta að hægt sé að leysa vandann með banni.