Föstudagur 28. júlí 2000

210. tbl. 4. árg.

Benjamín H. J. Eiríksson
Benjamín H. J. Eiríksson

Þegar Bjarni Benediktsson fór í mars 1949 vestur til Washington vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, notaði hann tímann einnig til að hitta íslenskan hagfræðing sem þar starfaði. Sá hafði lokið doktorsprófi í hagfræði undir leiðsögn hins kunna fræðimanns, Josephs Schumpeters, og starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann hét Benjamín Hafsteinn Jón Eiríksson og á viðburðaríkri ævi sinni varð hann meðal annars einn áhrifamesti hagfræðingur Íslands á þessari öld. Benjamín og Bjarni ræddu saman lengi dags og Benjamín útlistaði hvernig hann teldi að Íslendingar gætu unnið sig út úr þeim efnahagsvandamálum sem þeir höfðu glímt við síðustu ár.

Eftir að gjaldeyrisforði stríðsáranna var uppurinn höfðu stjórnvöld gripið til mikilla innflutningshafta, boða og banna. Torsótt leyfi urðu nauðsynleg fyrir flestu því sem framkvæmdamenn vildu taka sér fyrir hendur. Benjamín lagði áherslu á að haftabúskapurinn yrði lagður niður, frjálst atvinnulíf væri nauðsynlegt á Íslandi eins og annars staðar. Þessi ráð féllu í góðan jarðveg hjá Bjarna og Ólafi Thors sem nokkru síðar báðu Benjamín um að koma heim og verða ríkisstjórninni til ráðuneytis og aðstoða við að létta höftum af atvinnulífinu og efla frjálsa verslun.

Í félagi við Ólaf Björnsson samdi Benjamín greinargerð um efnahagsstjórnina og hefur sú greinargerð þeirra verið nefnd nokkurs konar kennslubók í nútímahagfræði fyrir stjórnmálamenn. Segja þeir þar meðal annars:
„Fyrsti og augljósasti hagurinn af frjálsri innflutningsverzlun er hið frjálsa val neytenda. Þeir fá frelsi til að velja það af vöruframboðinu, sem þeir girnast mest. Sá, sem kaupir hrærivél, hefði ef til vill keypt útvarp, ef hrærivélar væru ekki á boðstólum. Hið frjálsa val gerir, að neytandinn er ánægðari með það, sem hann fær fyrir peningatekjur sínar. Hann fær í raun og veru meira fyrir þær til uppfyllingar þarfa sinna en ella. Tekjur hans eru honum drýgri. Hið frjálsa val þýðir hins vegar ekki, að meira er keypt, þar sem tekjurnar eru hinar sömu, hvort sem valið er frjálst eða ekki. … Hið frjálsa val gerir kaupmanninn háðari neytendunum. Keppnin um söluna veldur því, að kaupmenn verða að leitast við að selja sem ódýrasta og vandaðasta vöru og veita sem greiðust viðskipti. Af því leiðir aftur, að kaupmanninum er það brýn nauðsyn að kaupa sem hagkvæmast.“

Ekki mun fara hjá því að nú á tímum þyki flestum þetta augljós sannindi. Er það ekki að undra því reynslan hefur tekið af öll tvímæli um það hvort frjáls viðskipti eða opinber höft reynist betur. En það hefði reynslan ekki fengið að gera ef engir hefðu orðið til að berjast fyrir afnámi haftanna. Þar lögðu menn eins og

Benjamín H. J. Eiríksson - Í stormum sinna tíða
Benjamín H. J. Eiríksson – Í stormum sinna tíða

Benjamín og Ólafur fram stóran skerf, en nútímamenn mega gjarnan minnast þess að hugmyndir þeirra féllu í mjög misjafnan jarðveg á sínum tíma.

Þegar Benjamín H. J. Eiríksson lést síðastliðinn sunnudag hafði hann tekið þátt í þjóðmálaumræðunni – að vísu með hléum – um lengri tíma en flestir aðrir menn. Á fjórða áratugnum boðaði hann sósíalisma en gerðist síðar hinn einarðasti talsmaður frjálsra viðskipta, barðist fyrir þeim um áratugaskeið og hafði mikil áhrif á stjórnmálamenn, fræðimenn og aðra þá sem kynntu sér verk hans. Hans síðustu opinberu skrif birtust í byrjun apríl á þessu ári þar sem hann hvatti fólk mjög til að kynna sér vel nýútkomna bók Arnórs Hannibalssonar, Moskvulínuna, en í henni var einmitt meðal annars fjallað um mál Benjamíns og dóttur hans sem hvarf í hreinsunum Stalíns. Ástæða er til að taka undir þá ábendingu Benjamíns um leið og vakin skal athygli á annarri bók sem kom út fyrir nokkrum árum. Er það ævisaga Benjamíns sjálfs, Í stormum sinna tíða, sem er stórfróðleg saga ákaflega óvenjulegs manns.