Þeir sem berjast fyrir breytingum í stjórnmálum þurfa að kljást við eitt og annað. Ekki einungis við venjulega andstæðinga sem af hugsjónaástæðum berjast gegn breytingum. Tregðulögmálið vinnur einnig gegn þeim. Margir eru tregir til að fallast á nýjar hugmyndir ef þær eldri eiga sér langa sögu. Hugmyndir, sem lengi hafi verið teknar gildar, hljóti að vera margreyndar og að mestu óumdeilanlegar.
Þó er það svo, að oft er vafasömum hugmyndum trúað svo lengi að mönnum sést yfir aðrar sem ef til vill eru nær sanni. Hér mætti nefna dæmi og hugsanlega best að taka það af einhverju öðru sviði en stjórnmálum. Líklega hefur engin íslensk saga verið eins lesin og rannsökuð og Brennu-Njáls saga. Öldum saman hafa höfuðpersónur hennar verið ímynd karlmennskunnar á Íslandi og fáir efast um þá mynd. En svo kann það að gerast einn góðan veðurdag að einhver varpar því fram að hugsanlega sé samband persónanna annað en almenningur hefur álitið.
Hér koma eflaust ýmsir fræðimenn og ýmsar kenningar til greina en sem dæmi um má nefna Hrafn Gunnlaugsson. Í ævisögu sinni, sem kom út árið 1994, segir hann skoðun sína á helstu persónum Njálu: „Þegar ég las Njálu í menntaskóla vakti athygli mína hið dulbúna hommasamband milli Njáls á Bergþórshvoli og Gunnars á Hlíðarenda, sem Njála lýsir samkvæmt frásagnartækni þeirra tíma. Gunnari er lýst sem fagurlimuðum vaxtaræktarmanni sem gengst upp í að vera í fínum fötum, eins konar fatafríki. Njáll er skegglaus lítill kall og svo vitur að Gunnar lítur upp til hans. Njáll býr með konu sem er „drengur góður“. Gunnar ríður jafnan áhyggjufullur til Bergþórshvols og þeir Njáll ganga einir. Eftir þá fundi er Gunnar mun kátari. Hann býr með Hallgerði, sem gamnar sér með húskörlum. Hjónabönd Gunnars og Njáls eru eins konar „camouflage“, yfirvörp homma í felum.“
Óhætt mun að fullyrða að slíkur skilningur sögunnar hafi sjaldnast hvarflað að almennum lesendum. En hann er jafn góður – eða slæmur – eftir sem áður. Ekki veit Vefþjóðviljinn hversu margir fræðimenn höfðu áður sett fram svipaðar tilgátur, hann veit hins vegar að þetta litla dæmi má hafa til marks um það að lengi má vænta frambærilegra tilgátna um skilning gamalla viðfangsefna.
Ríkissjóður er að sýna ágæta afkomu ef aðeins er litið á mun á tekjum og gjöldum og að því gefnu að menn álíti æskilegt að tekjur séu umfram gjöld. Ríkisendurskoðun telur líklegt að afgangur verið ríflega 20 milljarðar á árinu og er það töluverð breyting frá hallarekstri fyrri ára. Það sem veldur hins vegar áhyggjum er að batinn skýrist af auknum tekjum en ekki samdrætti í gjöldum, því gjöldin jukust um 8,6% á milli ára en tekjurnar mun meira eða um 11%. Þessar tvær prósentutölur, sem eru langt umfram verðbólgu á tímabilinu, sýna að ríkið þarf að skera niður útgjöld og lækka skatta.
En þó ríkið hugi lítið að því að spara útgjöld er það þó hátíð miðað við sveitarfélögin. Þar er fé eytt á báðar hendur og skuldum safnað eins og sveitarstjórnarmenn eigi lífið að leysa. Hvaða ástæða er til að sveitarfélögin stórauki sífellt alla „þjónustu“, reisi öll íþrótta- og menningarhúsin, geri alla útivistaraðstöðuna eða hiti upp Norður-Atlantshafið og haldi sundnámskeið fyrir sveitarstjóra? Er ekki mál til komið að sveitarstjórnarmenn finni sér önnur áhugamál en að „stórefla“ hitt og þetta og hætti að reyna að láta sér detta í hug nýjar útgjaldaleiðir?