Laugardagur 22. júlí 2000

204. tbl. 4. árg.

Stjórnvöld segja nú, að þau vinni að tilögum að niðurskurði ríkisútgjalda. Hafa þau jafnframt sagt að tillögurnar muni einkum verða um frestun fyrirhugaðra útgjalda. Slíkar tillögur yrðu vel þegnar og vonandi að stjórnmálamenn sýni stórhug í verki og sýni skattgreiðendum og atvinnulífinu þann skilning að láta hendur standa fram úr ermum.

Vefþjóðviljinn vill – í trausti þess að stjórnvöld hyggist í raun slá á útgjaldaaukninguna – koma með eina hugmynd að brýnni aðgerð. Eins og fólk veit var í vor barið í gegn frumvarp til nýrra laga um fæðingarorlof, frumvarp sem fól í sér mestu útgjalda- og skattaaukningu sem ákveðin hefur verið áratugum saman. Þetta frumvarp var keyrt í gegn í miklum flýti og skollaeyrum markvisst skellt við öllum gagnrýniröddum. Vefþjóðviljinn leyfir sér að leggja til, að ákveðið verði að fresta gildistöku þessara laga, um þó ekki sé nema eitt ár.

Með þessu ynnist margt. Þannig næðist brýn frestun á fyrirsjáanlegum gríðarmiklum útgjöldum, færi gæfist á að sníða verstu agnúana og misnotkunarmöguleikana af lögunum og með þessu móti tækist þeim ráðherra, sem mest lagði á sig til að lögin yrðu eins og þau urðu, að slá nokkuð á þá fullvissu manna að í þessu máli sé hann ákveðinn í að taka engum rökum.