Stjórnmála- og embættismenn hafa tamið sér sérstaka orðaleikfimi. Það er oft kvartað undan háum tollum hér á landi. Pólitíkusar og embættismenn svara því einu til að tollar séu ekki lengur stór hluti af tekjum ríkissjóðs og skipti orðið litlu máli. Þetta er rétt hjá þeim þar sem aðflutningsgjöldum (eða það sem fólk almennt kallar tolla) hafa verið gefin ný heiti eins og vörugjöld. Fjármálaráðherra nýtti sér þetta í Kastljósi í fyrrakvöld þegar hann sneri út úr spurningu Arnar Valdimarssonar á Viðskiptablaðinu með þessum hætti. Örn lagði til að tollar yrðu felldir niður til að vega á móti verðbólgunni og sjónvarpsáhorfendur sem biðu spenntir eftir svari ráðherrans sátu furðu lostnir þegar hann upplýsti að hér væru nær engir tollar þótt staðreyndin sé að landsmenn greiða yfir 20 milljarða króna á ári í slík gjöld.
Annað dæmi um pólitíska orðaleikfimi má nefna. Orðið ríkistofnun hefur á sér neikvæðan blæ og er raunar notað sem skammaryrði um fyrirtæki sem veita slaka þjónustu. Þess vegna var ákveðið að fækka ríkisstofnunum með einkavæðingu og útboðum víða um heim. En ekki hér. Hér er ríkisstofnunum fækkað með því að breyta þeim í ríkisstofur.
Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Hver hefði fyrir örfáum árum trúað því að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, varaþingmaður Samtaka frjálslyndra og miðstjórnarmaður Framsóknarflokksins, ætti eftir að umbreytast í forseta Íslands? Að sá, sem áður barðist til æðstu metorða og valda með þeim aðferðum sem honum duttu í hug hverju sinni, myndi skyndilega gerast þjóðhöfðingi og fara sem slíkur í opinberar heimsóknir um sveitir landsins og láta í ljós mikinn áhuga á afskekktum söfnum og fámennum grunnskólum? Hver hefði búist við að Ólafur Ragnar Grímsson hefði í gær keppt í bingói í grunnskólanum á Hólmavík og orðið „annar sigurvegara“ eins og það var orðað í fjölmiðlum?