Föstudagur 14. júlí 2000

196. tbl. 4. árg.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt frá, þá hefur Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og 2. þingmaður Suðurlands, undanfarið reifað þau sjónarmið að rétt sé að ríkið selji talsverðan hlut af þeim jörðum sem það á. Hafa fjölmiðlar haft það eftir Guðna að hann sjái ekki hvers vegna ríkið eigi að standa í því að eiga jarðeignir úti um allt. Vefþjóðviljinn hefur glaðst yfir þessu og gert sér vonir um að nú muni hið opinbera snúa sér að því að fækka þessum jörðum.

Og nú berast fréttir af því að ríkið sé farið að hugsa sér til hreyfings í jarðamálum. En að vísu ekki til þess að selja jarðir, nei nú standa yfir viðræður milli ríkisins og landeigenda í Haukadal um að ríkið kaupi land á Geysissvæði svonefndu. Í gærkvöldi ræddi Ríkisútvarpið við formann samninganefndar ríkisins, Þórð Ólafsson, og sagði hann að viðræðurnar gengju ákaflega vel þó menn hefðu ekki enn „komist að niðurstöðu um hversu mikið land ríkið þyrfti að kaupa“.

Nei, menn hafa ekki komist að niðurstöðu um það ennþá. Sem kannski er ekki undarlegt. Að minnsta kosti þykir Vefþjóðviljanum sennilegt að hann þyrfti talsverðan tíma til að komast að þeirri niðurstöðu að ríkið þurfi að kaupa nokkurn einasta hektara í Haukadal. Þeir fjölmörgu sem þangað hafa komið vita vel að þar hafa einkaaðilar byggt upp glæsilega aðstöðu fyrir ferðamenn og geta tekið á móti fjölda gesta sem kemur til að skoða hverasvæðið. Þessir einkaaðilar hafa að sjálfsögðu ríka hagsmuni af því að vel sé farið með þetta svæði svo það muni um ókomin ár heilla til sín ferðafólk. Ættu menn því að geta gert ráð fyrir því að svæðinu sé vel borgið í þeirra höndum. Óvíst er hins vegar hvað skattgreiðendur eiga að gera við svæðið.