Miðvikudagur 12. júlí 2000

194. tbl. 4. árg.

Á sama tíma og sala ríkisbankanna virðist hafa strandað í öðrum hvorum eða báðum þingflokkum stjórnarflokkanna boðar Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sölu ríkisjarða af miklum móð. Í DV í gær var rætt við Guðna og hann segist aðspurður eiga von á að hægt verði að selja töluverðan hluta hinna 510 ríkisjarða á næstu árum. Þótt Guðni segist ekki vilja að einstakar náttúruperlur verði seldar segist hann „sannfærður um að á sérstökum jöðrum geti fjárhagslega öflugir einstaklingar byggt upp áhugaverða starfsemi sem dregur að fólk, til hagsbóta fyrir viðkomandi byggðarlag.“ Og Guðni bætir við: „Það þarf ekki annað en að koma að Geysi í Haukadal til að sjá hvað einstaklingar geti áorkað.“

Efnahagsleg velmegun á Vesturlöndum hefur aukið eftirspurn eftir landi til skógræktar, veiða og annarrar útivistar. Hið opinbera má ekki koma í veg fyrir að einstaklingar og félög sem vilja eignast land til að njóta náttúrunnar geti það. Eða svo vitnað sé til landbúnaðarráðherrans: „Hópur fólks í þéttbýli hefur áhuga á að eignast land. Jarðaverð í dag er hátt og margar jarðir sem ríkið á eru betur komnar í höndunum á einstaklingum sem geta gert góða hluti. Fólk vill jafnvel flytjast og setjast að á jörðunum þótt það hafi ekki áhuga á hefðbundnum búskap heldur fyrir því að vera í náttúrunni og stunda jafnvel skógrækt eða hestamennsku.“

Guðni segir endurskoðunar þörf á jarðalögum en þau miða að því að búskapur sé stundaður á sem flestum jörðum, sveitarfélög hafa forkaupsrétt og kaupskylda hvílir á ríkinu gagnvart jörðum sem seljast ekki á ásættanlegu verði. Þessu máli tengt það sjónarmið margra að „vilja halda öllu landinu í byggð“. Þetta heyrist ekki síst frá þeim sem tilheyra flokki vinstrigrænna en sá flokkur hefur hlotið mikið lof fyrir að vita hvað hann vill og hafa skýra stefnu. Mönnum í sama flokki er einnig tamt að tala um að „vernda beri ósnortin víðerni“. Það er að sjálfsögðu lítið mál ef öllu landinu er haldið í byggð.