Eins og minnst hefur verið á hér í blaðinu, gætir pólitísks rétttrúnaðar nú af vaxandi þunga í Evrópu. Óvinsælar skoðanir eru gerðar útlægar sem „fordómar“ og alls kyns orð eru sögð „gildishlaðin“ og á þessum umburðarlyndu tímum eru þau því bönnuð. Eftir því sem rétttrúnaðinum vex fiskur um hrygg, verður erfiðara fyrir venjulegt fólk að tjá sig án þess að fá einhvern af hinum óteljandi minnihlutahópum upp á móti sér. Sumir þora varla lengur að opna munninn nema gæta þess að tala í viðurkenndum og flötum klisjum og nota engin orð sem nokkur kynni að móðgast yfir.
Það er ekki bara daglegt tal sem er að breytast. Hvort sem þróunin er öll vegna meðvitaðs undanhalds fyrir rétttrúnaðinum, þá gætir hennar á sífellt fleiri sviðum. Nefna má lítið dæmi, valið af handahófi.
Einn dag á ári er um allt land sunginn slagari sem þungarokksveitin Dúmbó og Steini gerði frægan á árum áður, „Það er kominn sautjándi júní“. Söngur þessi hefur árum saman verið kyrjaður á hátíðarhöldum þann dag, hvarvetna á landinu. Í fyrra bar hins vegar svo við að önnur hljómsveit hljóðritaði lagið og þannig var það spilað á útvarpsstöðvum. Og þá hafði textinn ofurlítið breyst.
Breytingarnar voru svosem ekki miklar, en þær voru nú gerðar samt. Í þeim texta sem menn höfðu vanist var til dæmis sungið í einu erindinu:
Skrúðgöngurnar þramma undir lúðrasveitarleik
lítil börn með blöðru, hin eldri snafs og reyk.
En í dag eiga menn ekki að reykja. Þess vegna er „rétt“ að syngja:
Skrúðgöngurnar þramma undir lúðrasveitarleik
lítil börn með blöðru, að lyfta sér á kreik.
Fleiri smábreytingar hafa orðið. Á þjóðhátíð er ætíð leikkona fengin til að lesa ljóð. Áður var fjallað um hana með óvirðulegum hætti:
Fjallkonan í múnderingu prílar upp á pall
með prjáli les upp ljóð eftir löngu dauðan kall.
Nú les hún ekki með neinu prjáli. Nú er þetta haft rétt og hún les „pent“.
Þetta eru svo sem ekki merkilegar breytingar en engu að síður hefur þótt ástæða til að gera þær. Nefnum eina enn í lokin. Í eldri texta var minnst á venjulegar kvöldskemmtanir hátíðarinnar:
Á kvöldin eru alls staðar útidansleikir
að sunnan koma rándýrir skemmtikraftarnir.
En bara svo menn átti sig á því, þá er það ekki þannig að þeir fyrir sunnan séu eitthvað merkilegri en íbúar landsbyggðarinnar. Eða að þeim eigi að borga meira en heimamönnum. Þess vegna er rétt að syngja í dag:
Á kvöldin eru alls staðar útidansleikir
og ævinlega spila þarna góðar hljómsveitir.