Í bókinni Cliches of Politics eru 83 kunnuglegar klisjur teknar til skoðunar. Sem dæmi má nefna: Þriðji heimurinn þarfnast þróunaraðstoðar, ríkið á að sjá öllum fyrir ókeypis læknisþjónustu, það þarf að jafna tekjur fólks, við þurfum samkeppnislög til að tryggja samkeppni, ríkinu ber að sjá öllum fyrir starfi, hið opinbera verður að styrkja listir, innflutningur fækkar störfum innanlands, kapítalisminn átti sök á Kreppunni miklu og yfirvöld verða að koma í veg fyrir að skammsýnir einkaaðildar eyðileggi umhverfið. Nú er hægt að lesa um allar þessar 83 klisjur á vef á vegum FEE útgefanda bókarinnar. |
„Leyfið ökumönnunum sjálfum að ákveða þetta,“ sagði Mark Moralez, bifhjólakappi, í miðborg Detroit um síðustu helgi. „Við ættum að fá að velja,“ bætti hann við. Málið snerist um notkun hjálma, en árlega ekur mikill hópur bifhjólamanna inn í Detroit til að mótmæla lögum sem skylda þá til að nota hjálma við aksturinn. Moralez segist sjálfur nota hjálm, en leggur áherslu á að valið eigi að vera hans, það sé ekki hlutverk hins opinbera að ákveða svona lagað fyrir hann.
Lög af þessu tagi eru þekkt hér á landi ekki síður en erlendis. Þeir sem kosnir eru til að setja öðrum mönnum lög virðast álíta að þeim sé ekkert óviðkomandi og að þeim sé bæði rétt og skylt að setja lög um alla mögulega og ómögulega hluti. Nýlegt dæmi er auðvitað þegar 27 þingmenn tóku sig til og bönnuðu 270.000 manns að stunda ólympíska hnefaleika. Annað dæmi er skyldunotkun bílbelta og annars sem fólk getur notað til að minnka líkur þess að slasast. Um allt þetta ætti að gilda það viðhorf sem bifhjólakapparnir í Bandaríkjunum halda fram, nefnilega það að ríkið hætti að skipta sér af einkamálum fólks. Ríkið á ekki að vera barnfóstra fyrir fullorðna.