Miðvikudagur 26. apríl 2000

117. tbl. 4. árg.

Verði hugmynd um lengingu fæðingarorlofs, sem þrír ráðherrar kynntu nýlega, að veruleika, yrði það ekki aðeins tilraun til skattlagningarmets heldur enn ein tilraun ríkisvaldsins til inngrips í einkalíf fólks og til að hafa áhrif á persónulegar ákvarðanir þess. Þannig njóta þeir einstaklingar sem hvorki kjósa að finna sér maka né að eignast börn ekki sömu náðar við skattlagningu og aðrir. Að minnsta kosti hefur enginn þingmaður hreyft við þeirri hugmynd að einhleypir og barnlausir fái orlof á kostnað skattgreiðenda til að treysta tengslin við maka sinn eða bara sjálfa sig. Ekki er dregið í efa mikilvægi þess að börn njóti samvista við foreldra sína á fyrstu mánuðum og árum ævi sinnar, en sú staðreynd veitir ekki foreldrunum sjálfkrafa rétt til tíma og peninga þeirra barnlausu.

Fyrir pelabörn
Fyrir pelabörn

En það er víðar en á Íslandi sem stjórnmálamönnum er kappsmál að fleiri en foreldrar greiði kostnað vegna barneigna. Hjá bresku ríkisstjórninni er nú til athugunar tillaga um að mæður fái greitt fyrir brjóstagjöf. Hugmyndin er að mæður fái matarmiða að andvirði tæplega 1.200 íslenskra króna á viku hafi þær börn sín á brjósti. Matarmiðunum mun eiga að fylgja það skilyrði að konurnar kaupi hollan mat, en ekki hefur verið skýrt frá því með hvaða hætti stjórnvöld hyggjast tryggja að mæðurnar en ekki einhverjir aðrir innbyrði matinn. Líklega verður komið upp eftirliti til að tryggja að mæðurnar kaupi ekki aðeins hollan mat heldur borði hann einnig.

Ríkisstjórnin í Bretlandi er auðvitað eins og aðrar ríkisstjórnir með „sérfræðinga“ á sínum snærum og mæla þeir með þessari aðferð. Þessir „sérfræðingar“ sem ævinlega eru kvaddir til þegar rökstyðja þarf aukin útgjöld eru hins vegar sjaldnast sérfræðingar í réttindum fólks gagnvart ríkinu eða sérfræðingar í skaðlegum áhrifum ríkisafskipta. Hin skaðlegu áhrif ríkisafskiptanna gleymast yfirleitt og einblínt er á jákvæðar afleiðingar þeirra. Vissulega kann vel að vera að börn hafi best af því að fá móðurmjólk. Þetta þýðir þó ekki að ríkið eigi að grípa inn í og hafa afskipti af því hvort mæður hafa börn lengi eða stutt á brjósti. Hvorki börnum né fullorðnum er greiði gerður með því að þenja út hið opinbera. Hinir fullorðnu greiða kostnaðinn af því í dag og börnin á morgun.