Þriðjudagur 25. apríl 2000

116. tbl. 4. árg.

Um síðustu helgi fyrirskipuðu Janet Reno, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, innrás inn á heimili fólks í Miami í Bandaríkjunum til að ná í ungan kúbverskan dreng. Hann var þar hjá frændfólki sínu en bandarísk yfirvöld vildu koma honum til föður síns. Ekki verður málið rakið nánar hér, enda vel þekkt eftir mikinn fréttaflutning síðustu daga. Minna hefur verið greint frá því í fréttum hvað bíður drengsins á Kúbu Castrós. Skólakerfið á Kúbu er ekki eins og það skólakerfi sem Íslendingar þekkja. Þar er pólitískt uppeldi barnsins stór þáttur skólastarfsins og litið á barnið sem „eign ríkisins“ eins og kúbverskur stjórnarerindreki í Washington orðaði það á dögunum. Þróun „kommúnísks persónuleika“ barnsins er höfuðatriði og barist er gegn áhrifum sem talin eru vinna gegn þessu markmiði. Réttindi foreldra til forsjár barna eru ekki litin sömu augum og á Vesturlöndum og ef foreldrarnir eru taldir standa í vegi fyrir kommúnískri mótun barnsins geta þeir misst forræði þess. Þetta er umhugsunarvert fyrir Juan Miguel Gonzalez sem nú hefur fengið son sinn að nýju í Bandaríkjunum. Skyldi hann veita honum það pólitíska uppeldi sem dugar til að halda forræðinu á Kúbu?

Ýmsir hér á landi vilja gera lítið úr því harðræði sem almenningur á Kúbu þarf að þola undir stjórn Castrós og halda því jafnvel fram að allt sem afvega hefur farið sé viðskiptabanni Bandaríkjanna að kenna. Þó viðskiptabannið sé af hinu illa er þetta auðvitað fráleitt. Staðreyndin er sú að sósíalískt hagkerfi gengur ekki upp og sýnir það sig t.d. í fátæktinni á Kúbu og örbirgðinni í Norður-Kóreu. En það er ekki aðeins fátækt sem rekur fólk til að leggja sig í lífshættu til að yfirgefa Kúbu. Castró beitir pólitíska andstæðinga miklu ofbeldi, fangelsar þá og pyntar. Í Wall Street Journal var svo dæmi sé tekið sagt frá manni sem hafði neitað að lýsa því yfir að hann styddi stjórnvöld á Kúbu. Í 22 ár sat hann í fangelsi og sætti ólýsanlegu harðræði af hendi yfirvalda. Að hans sögn er hann engin undantekning heldur eru þúsundir sem hafa svipaða eða verri sögu að segja. Hann slapp út fyrir tæpum tuttugu árum en enn í dag er ástandið með þessum hætti að sögn mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International. Að sögn þessa flóttamanns frá Kúbu hafa 80.000 menn verið fangelsaðir á síðustu 40 árum vegna stjórnmálaskoðana. Af þeim hafa 70.000 látið undan ofbeldi yfirvalda, en 10.000 hafa haldið í sannfæringu sína og liðið fyrir það. Þessar aðstæður á Kúbu er nauðsynlegt að hafa í huga hvenær sem rætt er um málefni sem tengjast eyjunni. Kúba er ekki venjulegt ríki þar sem fólk nýtur svipaðra réttinda og við þekkjum. Kúba er fangelsi og sumir leggja sig í lífshættu við að flýja þaðan. – En svo má ekki gleyma hinum sem fara í pílagrímsferðir þangað, eins og til dæmis talsmaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins.