
Microsoft er nú talið hafa brotið lög í Bandaríkjunum með því að hafa haft svokallaða einokunarstöðu á hugbúnaðarmarkaðinum og að auki að hafa selt vöru sem í raun hafi verið tvær vörur og þannig þröngvað annarri þeirra upp á neytendur. Að mati dómara er þetta brot á Sherman samkeppnislöggjöfinni þar í landi sem þingmaðurinn Sherman átti frumkvæði að árið 1890. Sherman lögin, eins og önnur samkeppnislöggjöf, eru sögð eiga vernda neytendur gegn því valdi sem menn telja sig sjá í sterkri markaðsstöðu fyrirtækja sem vegnað hefur vel. Þannig hafa margir þann skilning á lögunum að þau þjóni þeim tilgangi einum að vernda neytendur fyrir þessu einokunarvaldi fyrirtækja og að varna því að tilefnislausar verðhækkanir nái fram að ganga. Margir hafa því samúð með málsstaðnum.
Í upphafi var yfirlýst ætlun Shermans að gera ólögleg þau athæfi sem leiða myndu til aukins kostnaðar fyrir neytendur og í upphaflegu drögum Shermans var orðalaginu þannig háttað. Í meðförum þingsins var orðalaginu hins vegar breytt og þetta fellt út. Hver er þá tilgangur Sherman laganna? Raunverulegur tilgangur laganna virðist fyrst og fremst vera sá að koma til móts við ýmsa þrýstihópa og vernda þá sem fara halloka á markaðnum í baráttu um hylli neytenda, þ.e. oft óhagkvæman atvinnurekstur. Margir dómar, byggðir á Sherman lögunum, hafa fallið þar sem algjörlega er litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrirtæki hafa í raun lækkað verð og aukið framleiðni. Í máli Microsoft endurspeglast svo sú þversögn samkeppnislöggjafarinnar að líta á þann kost, sem flestir neytendur hafa valið, sem vandamál. Þess má svo geta að eftir lögfestingu Sherman laganna stóð Sherman fyrir setningu yfirgripsmikillar tollalöggjafar, neytendum til lítillar ánægju. Þar fór umhyggjan fyrir hag neytenda einnig fyrir lítið.
Opið bréf til Sigríðar Jóhannesdóttur þingmanns birtist í Morgunblaðinu í gær. Bréfritara gremjast sleggjudómar þingmannsins í garð veitingahúsareksturs við þjóðvegina en þingmaðurinn taldi matinn sem á boðstólum er, nánar tiltekið hina vinsælu hamborga, „ómerkilegar veitingar“. Bréfritari bendir réttilega á að þeir sem standi í þjónustu hljóti að hafa kröfur neytenda í fyrirrúmi. Það sé því ekkert ómerkilegt við það að afgreiða hamborgara. Rétt er að taka undir það enda er það ótrúleg sjálfumgleði stjórnmálamannanna að telja sig þess umkomna að segja öðrum hvað þeir eigi að kaupa, hvort sem það eru hamborgarar eða hugbúnaður.