Svonefndur hátekjuskattur (sem leggst á tekjur yfir 273 þúsund krónur á mánuði) er ágætt dæmi um skatt sem lagður var á að sérstakri kröfu vinstri manna úr öllum flokkum. Meginröksemdin fyrir þessum skatti var hann lenti á „breiðu bökunum“. Hann virkar þó ekki síður sem sérstök refsing gegn þeim sem eru að krafsa sig upp úr 250 þúsund krónum með mikilli yfirvinnu. Þeir finna jafnvel frekar fyrir þessum skatti en milljón króna mennirnir.
Há vörugjöld á vel útbúnum bifreiðum hafa átt að gegna sama hlutverki og „hátekjuskatturinn“. Með allt að 70% vörugjaldi á bíla hafa vinstri menn allra flokka talið sig skattleggja hátekjufólk og fjármagnseigendur. En þessi háu vörugjöld á sæmilega útbúna bíla hafa harkalegri áhrif á annan hóp fólks. Maðurinn, sem er að berjast við að komast upp fyrir 250 þúsund krónur í tekjur og er refsað fyrir með hátekjuskatti, getur gleymt því að eignast slíkan bíl.
Nú hefur fjármálaráðherra hins vegar lagt fram lagafrumvarp sem dregur úr þeim mun sem er á skattlagningu „lúxusbíla“ og annarra bíla. Verði frumvarpið samþykkt verða vörugjaldsflokkar aðeins tveir, 30% á bíla með undir 2000 vél og 45% á bílum með yfir 2000 vél. Þetta eykur að sjálfsögðu líkurnar á því að fólk með venjulegar tekjur geti eignast slíkan lúxus sem þokkalegur bíll er. Því ber að fagna þessu skrefi í frumvarpinu þótt vörugjöldin séu enn of há en ofan á þau bætist einnig 24,5% virðisaukaskattur. Almennt mega menn minnast þess oftar að sérstakir skattar á velmegun, sem nefndir hafa verið lúxusskattar, draga úr möguleikunum á því að fleiri njóti hennar.
Eins og rakið var hér í Vef-Þjóðviljanum í pistli 19. mars hefur Hjálmar Árnason þingmaður átt erfitt með að fara rétt með þegar sú ágæta lofttegund vetni er til umfjöllunar. Meðal þess sem Hjálmar hefur nefnt í málflutningi sínum er hve gríðarlega athygli Ísland hefur hlotið á alþjóðavettvangi vegna þess að íslenskir skattgreiðendur munu á næstu árum styrkja DaimlerChrysler um yfir 200 milljónir króna til reynsluaksturs á vetnisstrætisvögnum. Til dæmis hefur hann nefnt að orðið hydrogen hafi komið yfir á íslensku á forsíðu bæklings sem gefin var úr á vetnisráðstefnu erlendis sem Hjálmar og iðnaðarráðherra sóttu. Vef-Þjóðviljinn hefur nú fengið tækifæri til að kynna sér þessa forsíðu sem ber hróður Íslands um víðan völl. Þar má vissulega sjá orðið hydrogen á ýmsum tungumálum en ekki íslensku. Eitt orðið vefst þó fyrir Vef-Þjóðviljanum og er ekki gott að segja hvaða mállýska er þar á ferðinni en orðið er stafað svo: Vetny.