Ríkisstjórnir innan Evrópusambandsins eru smám saman að átta sig á að frjálsræði í efnahagsmálum er nauðsynlegt til að Evrópu dragist ekki aftur úr öðrum svæðum, sérstaklega Bandaríkjunum. Á leiðtogafundi í Lissabon um daginn var ákveðið að taka skref í átt til aukins markaðsfrelsis, t.d. í fjarskiptum. Fjarskipti og upplýsingatækni er raunar það sem leiðtogarnir telja að muni tryggja vöxt og hagsæld í Evrópu í framtíðinni. Það veldur nokkrum áhyggjum að um leið og þeir átta sig á að nauðsynlegt er að draga úr afskiptum ríkisvaldsins almennt þá skuli þeir álíta að ríkisvaldið eigi samt sem áður að ýta undir hraðari þróun í þessum málaflokki. Lærdómurinn sem æskilegt væri að dreginn yrði af þeirri stöðnun sem fylgt hefur of miklum ríkisafskiptum í Evrópu er sá að ríkið skipti sér ekki af atvinnulífinu og einskorði starfsemi sína á þessu sviði við að skapa atvinnulífinu skilyrði til að nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru, þar á meðal nýjustu tækni.
Nauðsynlegur fylgifiskur funda eins og fyrrnefnds leiðtogafundar virðist reyndar vera að leiðtogarnir samþykki einhverjar tillögur sem þeir geta veifað að fundi loknum og sagt að verði framkvæmt. Inn í slíkar samþykktir komast furðulegustu atriði, en sem dæmi má nefna að í þeirri sem gerð var í Lissabon er kveðið á um staðlað form af svokölluðu curriculum vitae fyrir alla þá sem sækja um starf innan ESB. Slík staðlahugsun hefur verið afar rík innan ESB og lýsir hún vel viðhorfi ráðamanna þar til hlutverks ríkisvaldsins.
Loks er athyglisvert að sá sem helst dró lappirnar á þessum fundi var nýja átrúnaðargoð Össurar Skarphéðinssonar, þess sem hugsanlega nær kjöri sem formaður Samfylkingarinnar. Lionel Jospin forsætisráðherra Frakklands taldi að nauðsynlegt væri að fara hægar í að auka frjálsræði á mörkuðum og aflétta ríkiseinokun. Hann er sá maður sem helst stendur í vegi fyrir því að Evrópa færist í rétta átt og er vel til fundið hjá Össuri að gerast málsvari hans hér á landi.