Laugardagur 1. apríl 2000

92. tbl. 4. árg.

Í síðustu viku var dagur vatnsins og var þess getið í allnokkrum blaðagreinum og fréttum. Það sem einkenndi því miður þá umræðu var sama bölsýni og einkennir umræðu um umhverfis- og auðlindamál almennt. Vissulega er vatnsskortur víða en hverjar eru ástæðurnar fyrir honum? Víða á Vesturlöndum er landbúnaður styrktur af stjórnvöldum þótt henda þurfi framleiðslunni eða hún sé margfalt dýrari en aðfluttar afurðir frá löndum þar sem hagstætt er að rækta afurðina. Yfirleitt fylgir óhagkvæmum landbúnaði mikil vatnsnotkun. Dæmi um þessa sóun má nefna frá vesturríkjum Bandaríkjanna þar sem stórum hluta af vatnsnotkun landsmanna er sóað á eyðimerkurakra til ræktunar.

Ástæðan fyrir þessari gríðarlegu sóun er einföld. Hið opinbera sér yfirleitt um útvegun á neysluvatni. Vatnið er því ekki selt á markaðsverði og skortur leiðir ekki til hærra verðs og minni notkunar. Þrýstihópar, eins og bændur, fá vatn á verði sem er aðeins brot af þeim kostnaði sem fylgir vatnsöfluninni og vafalaust langt undir því verði sem væri á markaði. Besta ráðið gegn sóun á vatni er að einkavæða vatnsveitur og vatnsréttindi og hætta niðurgreiðslum til landbúnaðar og iðnaðar til að koma í veg fyrir að slíkir aðilar komist yfir vatn til óhagkvæmrar notkunar. Með einkavæðingu á vatnsveitum má búast við því að vatn til einstakra notenda verði mælt og óþarfa sóun (daglegir bílaþvottar, lekir klósettkassar o.s.frv.) bitni því á pyngju þeirra.

Í raun er til nóg vatn og næg fæða í heiminum. Víða skortir fólk þó hvort tveggja. Í tímaritinu The Economist voru þessu máli gerð skil nýlega og sagði m.a.: „Cherrapunji er einn blautasti staður jarðar. Í venjulegu árferði mælist rigning um 11 metrar á ári. Gopalpura er í öðrum hluta Indlands og þar mælist rigning aðeins nokkrir sentimetar á ári. Á hvorum staðnum ætli sé vatnsskortur? Í svarinu liggur einnig svarið við því hvað er að vatnsmeðhöndlun í heiminum. Í Cherrapunji er vatni sóað og íbúar líða skort en í Gopalpura hafa menn lært að fara með vatnið og líta á það sem verðmæta auðlind. Því miður er ástandið víða í heiminum eins og í Cherrapunji. Flestar ríkisstjórnir hafa farið svo illa með vatnið að stórum hluta þess er sóað. Þetta er helsta ástæðan fyrir því að fimmti hver jarðarbúi hefur ekki aðgang að hreinu vatni.“