Fimmtudagur 30. mars 2000

90. tbl. 4. árg.

Össur Skarphéðinsson er nútímalegur stjórnmálamaður að eigin mati og álítur hann að nú sé kominn tími til að hann leiði hluta íslenskra vinstri manna í nýjum flokki. Útlit er fyrir að þessi flokkur verði stofnaður á næstunni og hver veit nema Össuri takist að sigra í formannskosningu þar. Það mun hins vegar ekki breyta því að Össur er ekki nútímalegur jafnaðarmaður heldur gamaldags vinstri maður. Í þættinum Silfur Egils um síðustu helgi mátti glöggt heyra hversu langt Össur á í land með að geta talist hafa gleymt þeim fræðum sem hann tileinkaði sér í Alþýðubandalaginu fyrir nokkrum árum.

Hann hélt því t.d. fram að núverandi ríkisstjórn hefði misnotað ríkisvaldið vinum sínum til framdráttar, en álítur að svarið við meintri misnotkun af því tagi sé að styrkja ríkisvaldið! Hefði Össur í raun og veru áhyggjur af misnotkun ríkisvaldsins og teldi að hún væri vandamál ætti hann vitaskuld að leggja til að ríkisvaldið yrði dregið saman og því skorinn þrengri stakkur. Hann er hins vegar sólginn í völd eins og aðrir vinstri menn og vill fá að beita þeim án aðhalds.

Össur vill ekki lækka skatta í góðæri, og hefur heldur aldrei ljáð máls á því að lækka þá þegar illa árar. Hann er sem sagt á móti skattalækkunum, en hefur eins og aðrir Samfylkingarmenn stutt víðtækar skattahækkanir. Þetta er klassísk gamaldags vinstri stefna. Össur álítur að „franska módelið“ eigi að vera fyrirmynd íslenskra vinstri manna og Tony Blair hefur vikið fyrir Lionel Jospin leiðtoga franskra sósíalista. Skandinavíska kerfið sé komið í öngstræti og Tony Blair sé of hægri sinnaður, m.ö.o. of nútímalegur. Ekki er langt síðan Össur skálaði fyrir sigri Blair, en nú er það sem sagt franska leiðin sem gildir. Vafalaust á þessi aðdáun á Jospin að veiða atkvæði meðal fylgismanna Vinstri grænna. Verður þessi hringlandi Össurar síst til þess að menn gleymi ummælum mannsins sem síðar varð aðstoðarmaður hans í umhverfisráðuneytinu um „mesta vindhana íslenskra stjórnmála“.

Ríkisstjórnin boðar nú að auka enn skattalegt hagræði af lífeyrissparnaði. Mótframlag (niðurgreiðsla) ríkisins verður m.a. hækkað úr 0,2% í 0,4% og greiðslur í lífeyrissjóði sem undanþegnar eru staðgreiðslu tekjuskatts eiga að hækka. Þetta mun gert í þeim tilgangi að auka sparnað. Vef-Þjóðviljinn hefur áður varað við því að einu sparnaðarformi sé hossað á þennan hátt. Stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af því hvernig fólk sparar. Þeir mættu hins vegar lækka tekjuskattinn og aðra skatta svo að fólk hafi eitthvað til að leggja fyrir. Það á að gefa fólki kost á því að spara en ekki ákveða hvernig það sparar. Þær leiðir sem henta einstaklingum best til að leggja fyrir eru jafnmargar einstaklingunum. Framlög í lífeyrissjóð henta ekki einstaklingi sem er að koma snjallri en fjárfrekri viðskiptahugmynd á koppinn eða einstaklingi sem á eftir að vinna skamman tíma þar til taka lífeyris hefst, svo tvö dæmi séu nefnd. Svona stjórnvaldsstýring á sparnaði mismunar einnig þeim aðilum sem keppa um sparnað fólks.