Talnakönnun hf. gefur út tímaritið Vísbendingu. Í ritstjórnargrein blaðsins 24. mars var eftirfarandi pistill: „Enn er hafin umræða um að banna skuli birtingu upplýsinga um tekjur manna. Þessar upplýsingar hafa áratugum, ef ekki öldum, saman verið opinberar í gegnum skattskrár, sem eru opinber gögn. Öllum launþegum er mikilvægt að þessar upplýsingar séu opnar svo að menn geti samið um kaup og kjör með hliðsjón af kjarastöðu annarra. Grundvöllurinn að frjálsri samkeppni er fullkomið upplýsingastreymi um markaðinn. Þeir sem snúast gegn birtingu slíkra upplýsinga eru að leggja stein í götu hins frjálsa markaðar.“
Hér er sérkennilegur málflutningur. Það er allt í einu orðið grundvöllur frjálsrar samkeppni að ríkið safni saman upplýsingum um persónulega hagi fólks úr skattaskýrslum og birti þær opinberlega! Í Bretlandi og fleiri löndum eru þessar upplýsingar ekki birtar en ekki hafa borist fréttir af því að menn eigi erfitt með að semja um kaup og kjör. Þar mun ekki hafa verið minna frjálsræði í efnahagsmálum en hér þrátt fyrir að þessi „grundvöllur að frjálsri samkeppni“ hafi ekki verið til staðar. Vísbending hefur áður býsnast yfir því að það verði ef til vill mögulegt að persónugreina menn í gagnagrunni á (hinu ríkisrekna) heilbrigðissviði. Er Vísbending andvíg eða fylgjandi „fullkomnu upplýsingastreymi“ frá ríkinu um persónulega hagi fólks? Fer það ef til vill eftir því hvort útgefandi Vísbendingar hefur fjárhagslega hagsmuni af hinu „fullkomna upplýsingastreymi“?
Talnakönnun hf., hefur árum saman gert sér mat úr þeim persónulegu upplýsingum sem birtar eru í skattskrám með því að gefa þær út í ritum sínum. Þess vegna er það hvorki meira né minna en „grundvöllur að frjálsri samkeppni“ að ríkið haldi áfram að útvega Talnahönnun hf. þetta hráefni.
Samtök fiskvinnslu án útgerða segjast vilja breyta kvótakerfinu. Að þeirra sögn felst breytingin í markaðsvæðingu og frjálsri samkeppni. Sumir héldu að nú þegar væru kostir markaðar og frjálsrar samkeppni nýttir þar sem veiðiheimildir ganga kaupum og sölum, en að áliti fyrrnefndra samtaka mun svo ekki vera. Leiðin til að auka markaðinn mun að sögn samtakanna vera að aftengja eignarréttinn, en eignarréttur er reyndar yfirleitt álitinn ein af forsendum þess að markaðshagkerfi geti starfað eðlilega. Hugmyndin er að þjóðnýta veiðiheimildirnar og bjóða þær svo upp, 20% á ári. Þetta mun auka óvissu og draga úr hagkvæmni í greininni, en því neita þessi samtök að trúa. Annað er að sögn þessara samtaka, að ekki ríkir hér „raunveruleg“ frjáls samkeppni því stóru fyrirtækin hafa betri aðgang að fjármagni. Samtök fiskvinnslustöðva án útgerða telja sig hins vegar vita að ástæðan sé ekki sú að stóru fyrirtækin séu álitin vel rekin, heldur einhver önnur og dularfyllri. Ekki fylgdi útskýring á því hvers vegna fólk er tilbúið að láta fé sitt í þessi fyrirtæki en ekki þau sem eru samtökunum þóknanlegri.