Þriðjudagur 28. mars 2000

88. tbl. 4. árg.

Sígarettuframleiðendur hafa að undanförnu mátt greiða háar bætur þar sem þeir settu ekki viðvaranir á sígarettupakka um skaðsemi reykinga. Þeir sem lýsa því yfir að hafa ekki gert sér grein fyrir skaðsemi þess að draga reykinn frá brennandi pappír og tóbaki ofan í sig eru auðvitað að lýsa yfir ákveðnu dómgreindarleysi svo ekki sé fastar að orði kveðið. En þetta er arðbær yfirlýsing um þessar mundir enda hafa stjórnmálamenn víða um heim gefið út veiðileyfi á tóbaksframleiðendur. Í gær féll svo dómur í San Francisco yfir tóbaksframleiðandunum Philip Morris og R.J. Reynolds vegna dauðvona reykingamanns sem hóf þó ekki að reykja fyrr en eftir að tóbaksfyrirtækin hófu að birta tilkynningar um skaðsemi reykinga á pökkum sínum. Hann fékk 1400 milljónir íslenskra króna í bætur frá fyrirtækjunum sem seldu honum sígarettur með viðvörunum!

Við hverju mega framleiðendur á kjöti og osti búast þegar jafnaugljós skaðvaldur og sígarettan fær slíka útreið? Það kemur yfirleitt ekki fram á hamborgurum og ostbitum að neysla þeirra geti valdið hjartasjúkdómum. Bílaframleiðendur upplýsa kaupendur heldur ekki um möguleg örkuml í umferðinni. Hvenær verða þeir teknir fyrir? Tóbaksiðnaðurinn á sér fáa formælendur þótt þessi iðnaður gangi eins og annar iðnaður út á að framleiða vöru sem fólk vill kaupa og njóta þrátt fyrir mögulegar neikvæðar afleiðingar. Því miður hefur borið á þessu ofstæki gegn tóbaki hérlendis að undanförnu í auglýsingum frá tóbaksvarnarnefnd ríkisins (sama ríkis og hirðir bróðurpartinn af verði sígarettupakkans). Þær ganga í stuttu máli út á að reykingamenn séu ekki aðeins viðurstyggilegir og illa þefjandi sóðar heldur getirðu allt eins gleypt geislavirkan úrgang eins og að reykja.