Hjálmar Árnason fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsfélags Sandgerðis og núverandi þingmaður Framsóknarflokksins hefur á undanförnum árum ekki sést fyrir þegar hin ágæta gastegund vetni er annars vegar. Allt útlit er fyrir að skattgreiðendur muni á næstunni leggja nokkur hundruð milljónir króna í vetnisævintýri Hjálmars. Á Rás 2 hinn 6. mars síðastliðinn lét Hjálmar móðan mása um vetnið af trúarlegri sannfæringu. Þrátt fyrir trúarhitann leyfir Vef-Þjóðviljinn sér að gera nokkrar athugasemdir við boðskapinn en fullyrðingar þingmannsins eru skáletraðar hér í textanum.
Hjálmar sagði í þættinum frá fundi hagsmunaaðila um vetnisnotkun í Bandaríkjunum sem hann sótti ásamt iðnaðarráðherra og sagði að það fari ekki á milli mála að Bandaríkjamenn veðji á vetni.
Landsamband bakarameistara veðjar líka á brauð og kökur. OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, veðjar alveg örugglega á olíu. Það er alveg rétt hjá Hjálmari að bílaframleiðendur eru að skoða þessa vetnistækni en þeir eru líka að þróa ýmsar aðrar leiðir; rafmagnsbíla, blendinga af rafmagns- og olíubíl, blending af gasi og olíu og síðast en ekki síst eru þeir að bæta olíu- og bensínvélina á hverjum degi. DaimlerChrysler kynnti nýlega blending af rafmagns- og dieselolíubíl sem eyðir um 3 lítrum á hundraðið og er eins og stór og glæsilegur fólksbíll að öðru leyti eins og VÞ sagði frá fyrir nokkrum dögum. Eldsneytisframleiðendur vinna einnig hörðum höndum að því að bæta framleiðslu sína og hafa náð miklum árangri undanfarna áratugi. Hvaða lausn verður ofan á er vonlaust að spá fyrir um og alls ekki útlit fyrir að það verði aðeins ein lausn.
„Það var mjög ánægjulegt á þessari ráðstefnu
að heyra hvað Íslands var oft getið þar, m.a. á forsíðu bæklingsins þá stóð hydrogen semsagt enska útgáfan af orðinu vetni og svo orðið vetni á ýmsu helstu þjóðtungumálum þ. á m. íslensku.“
Hvílíkur árangur. Vef-Þjóðviljinn óskar Hjálmari til hamingju og íslensku þjóðinni allri. Má spyrja hvað það hefur kostað íslenska skattgreiðendur að vinna það frækilega afrek að koma íslenska orðinu vetni á þennan bækling á ráðstefnu sem iðnaðarráðherra og formaður iðnaðarnefndar Alþingis sóttu? Hvaða árangur hefði Hjálmar komið með heim af ráðstefnunni ef hydrogen hefði ekki komið fyrir á íslensku í bæklingnum? Á heimasíðu bandaríska vetnisfélagsins má finna fréttabréf félagsins frá 1996. Þar er Íslands hvergi getið í efnisyfirliti. Hvorki á íslensku né öðrum helstu þjóðtungumálum.
Hjálmar hélt því fram í viðtalinu á Rás 2 að það þurfi „4-5 Terawattstundir til að framleiða vetni á allan bíla- og fiskiskipaflotann“.
Þetta er tvöfalt hærra en íslenska vetnisríkisfyrirtækið og fósturbarn Hjálmars Nýorka hefur haldið fram. Og þetta er einnig tvöfalt hærra en Hjálmar hélt sjálfur fram í grein í Morgunblaðinu 12. nóvember síðastliðinn. Hvað skýrir þessa skyndilegu afturför í orkunýtingu vetnisframleiðslu og -notkunar? Hvernig skýrir Hjálmar Árnason það að í nóvember fullyrti hann að aðeins þurfi 2,6 TWh en nú í mars segir hann að þurfi 4-5 TWh? Nýorka hefur raunar sníkt 20 milljónir króna út úr Landsvirkjun á þeirri forsendu að aðeins þurfi 2,6 TWh til vetnisframleiðslu á bíla- og fiskiskipaflotann. Þetta sýna gögn sem fulltrúar Nýorku veifuðu framan í fulltrúa Landsvirkjunar. Landsvirkjun var því blekkt til að leggja 20 milljónir króna í verkefnið. Staðreyndin er hins vegar sú að ef við ætlum að skipta olíu alveg út fyrir vetni þurfum við a.m.k. að virkja jafnmikið (7 TWh) og við höfum þegar gert, sennilega meira. Það er þó nokkur ávinningur að Hjálmar er farinn viðurkenna að miklar virkjanir þurfi til vetnisframleiðslunnar. En í stuttu máli snýst þetta vetnisverkefni um að breyta rafmagni í vetni og svo vetninu aftur í rafmagn í efnarafölum í farartækjum.
„Yfirlýsing íslensku ríkisstjórnarinnar að stefna að fyrsta vetnissamfélaginu í veröldinni.“
Engin slík yfirlýsing er til. Aðeins almenn yfirlýsing þriggja ráðherra frá 27. október 1998 um að „það sé stefna ríkisstjórnarinnar að stuðla að aukinni notkun innlendra endurnýjanlegra orkulinda í sátt við umhverfið. Ein þeirra leiða sem til greina koma í því skyni er framleiðsla umhverfisvænna orkubera til að knýja farartæki og fiskiskip. Einn slíkra orkubera er vetni.“ Þessi orð úr yfirlýsingu ráðherranna eru býsna langt frá því að vera yfirlýsing um að stefna að fyrsta vetnissamfélaginu. Í nýrri verkefnisskrá umhverfisráðuneytisins er heldur ekki minnst á „vetnissamfélag“. Í viðtali við Morgunblaðið 15. mars segir svo Þorsteinn Sigfússon stjórnarmaður í vetnisríkisfyrirtækinu Nýorku um 80 milljóna króna styrk ríkisins til Nýorku: „Þetta er eðlilegt framhald af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að undirbúa vetnishagkerfi á Íslandi.“ Vetnishagkerfi! Mun það leysa markaðshagkerfið af hólmi?
„Ávinningurinn er sá að við losnum við þessa mengun sem er orðið vandamál hérna og menn verða varir við í Reykjavík.“, sagði Hjálmar einnig í viðtalinu á Rás 2.
Helsta mengunin frá bílum í Reykjavík og sú eina sem fer vaxandi er rykmengun frá upptættu malbiki og sandi. Útblástursmengun frá bílum hefur minnkað hér undanfarin ár eins og nýleg skýrsla frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sýnir. Þessi jákvæða þróun á sér einnig stað í öðrum vestrænum löndum og furðulegt að hún hafi farið framhjá Hjálmari. Ef vetnisbílar verða á hjólum munu þeir að sjálfsögðu tæta upp malbik eins og aðrir bílar.
„Hávaðinn, hann hverfur“.
Stór hluti umferðarhávaða er niður frá dekkjum og þytur vegna loftmótstöðu. Þessi hávaði hverfur ekki þótt notað væri vetni á bíla. Rannsóknir sýna að þegar bíll hefur náð 50 km hraða er meiri hávaði frá dekkjum en vél. Aftur virðist Hjálmar telja að vetnisbílarnir muni ekki rúlla um á hjólum.
„Áhættan er engin hjá okkur.“
Íslenska ríkið, ýmis ríkisfyrirtæki og SVR ætla að leggja nokkur hundruð milljónir króna í tilraunaakstur á strætisvögnum fyrir DaimlerChrysler. Í vikunni tilkynnti ríkisstjórnin um sérstakt 80 milljóna króna framlag til verkefnisins. Það er gott að hið opinbera er aflögufært um áhættufjármagn handa stærstu og ríkustu bílaframleiðendum í heimi. Þessar íslensku milljónir skipta litlu máli fyrir framþróun vetnistækninnar en þetta eru miklir peningar fyrir íslenska skattgreiðendur. Hjálmari Árnasyni hefur verið tíðrætt um að hinir og þessir „veðji á vetni“ en á sama tíma heldur hann því fram að þetta veðmál sé hið fyrsta í sögunni án áhættu.
Hér fylgja svo tvær nýlegar tilvitnanir í Hjálmar Árnason sem sýna ágætlega hve trúverðugur hann er í þessu vetnismáli og hve skattgreiðendur geta verið rólegir yfir því að hann skuli „veðja“ fé þeirra á vetnið:
„Það er alveg rétt að vetnið er ekki orkugjafi, það er orkuberi.“ – Hjálmar Árnason á Rás 2 6. mars 2000. | „Veðjað hefur verið á vetnið sem orkugjafa 21. aldar.“ – Hjálmar Árnason í Morgunblaðinu 12. nóvember 1999. |
Þegar á það er litið að Hjálmar Árnason hefur ekki aðeins orðið tvísaga um ýmis grundvallaratriði varðandi vetnismálin heldur einnig farið rangt með mörg atriði hlýtur að vera nauðsynlegt að staldra við og skoða hvort þau miklu útgjöld sem hann ætlar að leggja á skattgreiðendur vegna málsins séu byggð á þessum fúnu undirstöðum. Það er svo sem ekki nýtt að pólitísk sýndarmennska og vísindarannsóknir eigi litla samleið. Hjálmar Árnason og vetnisrannsóknir eru skólabókardæmi um það.