Laugardagur 18. mars 2000

78. tbl. 4. árg.

Verðandi sjálfkjörinn leiðtogi Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, er mikill aðdáandi Tony Blairs. Hann gengur raunar svo langt í aðdáun sinni að tala um að hann vilji að Samfylkingin taki upp sömu stefnu og Blair-stjórnin. Óvenjulegt verður að teljast að stjórnmálamaður í einu landi dáist svo mjög að stjórnmálamanni annars lands, en þetta er sjálfsagt hluti af þeim breytingum sem íslenskir félagshyggjumenn vilja sjá á íslenskum stjórnmálum.

Nú er það að vísu svo að Blair er ósammála helsta baráttumáli Össurar í gegnum tíðina, en það hefur verið að í háskólum skuli ekki vera skólagjöld. (Hér er sem sagt gert ráð fyrir að helsta baráttumál Össurar sé ekki að koma Össuri á framfæri.) Blair er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að háskólanemar taki þátt í kostnaði við menntun sína og skyldi engan undra. Össur má hins vegar ekki heyra á slíkt minnst og vill að skattgreiðendur sjái alfarið um að kosta menntun háskólamanna. Hvernig Össur hyggst fá Blair til að skipta um skoðun er ekki gott að segja, en Vef-Þjóðviljinn spáir löngum og erfiðum samningaviðræðum ef Össur hyggst halda fast við þessa skoðun sína.

Annað sameinar þó Blair og aðdáanda hans, en það er stefna þeirra varðandi skatta, að minnsta kosti ef stefna Blairs er skoðuð í ljósi reynslunnar en ekki aðeins loforðanna. Staðreyndin er nefnilega sú að Blair hefur þyngt skattbyrði í Bretlandi um nær tvö prósentustig, eða úr 35,3% í 37% af vergri landsframleiðslu. Líkt og Össur hefur Blair verið tregur til að viðurkenna þessar staðreyndir um afleiðingar stefnu sinnar og í breska þinginu í nóvember síðastliðnum sagði hann t.d.: „Við erum að lækka skatta.“ Svipaðar sögur segja Samfylkingarmenn þegar þeir eru spurðir út í afleiðingar stefnu þeirra. Þeir segjast ætla að leggja á nýja umhverfisskatta, en samt eiga skattar ekki að hækka, og þeir ætla að leggja nýjan skatt á sjávarútveginn, en samt eiga skattar ekki að hækka. Reynslan bæði hér á landi og í Bretlandi hjá einkavini Össurar er sú að vinstri stjórnir hækka skatta. Þetta þarf raunar ekki að koma á óvart, því út á það gengur stefnan og þess vegna eru þessar stjórnir vinstri stjórnir og flokkarnir sem að þeim standa vinstri flokkar.

Ólíkt Blair hefur William Hague leiðtogi íhaldsmanna í Bretlandi sagt háum sköttum stríð á hendur. Hann telur að fyrir skattalækkunum séu ekki aðeins efnahagsleg rök, heldur einnig siðferðisleg rök. Hann er þeirrar skoðunar að síaukin skattheimta dragi úr frelsi manna og ábyrgð þeirra og geri þá háða ríkisvaldinu. Þó íslenskir stjórnmálamenn á hægri kantinum ættu að forðast að ganga í aðdáendaklúbb annars stjórnmálamanns líkt og Össur hefur gert, væri ekki úr vegi fyrir þá að hugleiða þessi sjónarmið Hagues. Hér á landi er fátítt að heyra slíkar röksemdir gegn skattheimtu, en þær skipta vissulega miklu máli. Skattar eru ekki leikfang sem stjórnmálamenn eiga að nota til að hámarka tekjur ríkisins svo þeir geti keypt atkvæði með því að láta undan þrýstihópum, heldur eru þeir í besta falli ill nauðsyn sem ber að lágmarka eins og nokkur kostur er.