Mánudagur 20. mars 2000

80. tbl. 4. árg.

Karl Blöndal blaðamaður ritaði viðhorfspistil í Morgunblaðið á fimmtudaginn þar sem hann lýsti kostum þess að kjósendur taki „beina“ afstöðu til mála með þjóðaratkvæðagreiðslu. Karl telur að ný tækni muni auðvelda mönnum að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu um mörg mál þótt það liggi fyrir að nýja tæknin sé ekki á allra færi og mikill munur sé á því hve vel ýmsir aldurshópar hafa tileinkað sér hana eins og kannanir á netnotkun hafa leitt í ljós. Það kemur ekki á óvart að það eru blaðamenn, upphlaupastjórnmálamenn (Jóhanna Sigurðardóttir er gott dæmi) og aðrar talandi stéttir sem vilja fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Hinar talandi stéttir hafa oft mikil skammtímaáhrif í einstökum málum en gengur erfiðar að hafa áhrif á almennar skoðanir fólks til lengri tíma. Þess vegna vilja þær fremur efna til átaka og kosninga um einstök mál en almenna stefnu. Þess vegna vilja þær fremur þjóðaratkvæðagreiðslur en fulltrúalýðræði.

„Úttekt“ eins fjölmiðils daginn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðið mál gæti haft mikið að segja um úrslit kosningarinnar. Upphlaup eins stjórnmálamanns daginn fyrir slíka atkvæðagreiðslu gæti einnig riðið baggamuninn. Hinum talandi stéttum líkar þessi tilhugsun ágætlega. Stjórnlyndum líkar hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslur einnig vel þar sem þeir telja góðar líkur á því að með því megi draga fleiri mál inn í stjórnmálaumræðuna. Hver getur verið á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál ef þær eru tíðkaðar á annað borð? Við þurfum hins vegar síst á því að halda að fleiri mál séu dregin inn í stjórnmálaumræðuna og að fólk eyði öllum frítíma sínum í að standa í pólitísku karpi eða velta fyrir sér smæstu atriðum allra pólitískra deilumála. Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna í dag er að fækka viðfangsefnum stjórnmálanna. Það þarf að færa enn fleiri verkefni út til fólksins með einkavæðingu og auka vald fólks í eigin málum með skattalækkunum og frjálslegri löggjöf. Er hægt að hugsa sér beinna lýðræði en það að fólk ráði sér sjálft og „greiði atkvæði“ með hegðun sinni oft á dag? Þjóðaratkvæðagreiðslur, þótt þær séu framkvæmdar með músarsmellum af fólkinu sem hefur tileinkað sér netið, breyta því ekki að þar hefur einhver hluti þátttakenda betur en vilji hinna er hunsaður.

Aukning hagnaðar fyrirtækja á aðallista Verðbréfaþings Íslands milli áranna 1998 og 1999 var 6,8 milljaðar króna. Skattgreiðslur þessara fyrirtækja hækkuðu því úr 1,5 í tæplega 4 milljarða milli áranna. Þetta kom fram í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Furðulítið hefur heyrst kvartað undan þessum aukna hagnaði miðað við fyrri ár svo ef til vill eru fleiri búnir að átta sig á því að það fitna fleiri á góðum hagnaði í atvinnulífinu en eigendur fyrirtækjanna. Starfsmenn njóta hagnaðarins í betri kjörum og ríkissjóður gildnar. Þá heyrist ekki lengur kvartað undan því að tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður fyrir nokkrum árum. Ef til vill eru menn einnig búnir að átta sig á því að skattar draga úr þrótti fyrirtækja og því lægri sem þeir eru því öflugri verða fyrirtækin og því „betri“ skattgreiðendur.