Segjum sem svo að þingmönnunum Kristjáni Pálssyni, Árna Johnsen, Drífu Hjartardóttur, Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Hjálmari Árnasyni, Sigríði Jóhannesdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni detti í hug að flytja þingsályktunartillögu um skógrækt á ákveðnu svæði og að skattgreiðendur pungi út fyrir henni. Hvaða svæði ætli yrði fyrir valinu? Það svæði sem hentar best til skógræktar? Eða úfin hraun og sjóbarðir klettar? Eða nýja suðvesturkjördæmið sem allir þessir þingmenn munu bjóða fram þjónustu sína í næstu kosningum? Þeir sem þykjast ekki vita svarið geta lesið um það í þingsályktunartillögu um aukna skógrækt í kjördæmi þingmannanna.
Sem kunnugt er mun Össur Skarphéðinsson fá að vinna Jóhönnu Sigurðardóttur í formannskjöri á fundi hjá Samfylkingunni á næstunni en Jóhanna gjörsigraði Össur í prófkjöri í fyrra. Jóhanna mun að vísu fá mesta fylgið en samkvæmt reglunum má hún ekki vinna og því verður Össur formaður. Kosningin verður einfaldlega endurtekin ef Jóhanna vinnur í fyrstu umferð. Til að sanna sig sem formannsefni hefur Össur gert harða hríð að ráðherrum ríkisstjórnarinnar að undanförnu og gert lýðum ljóst að ýmsir ráðherrar hafa vanrækt helstu hagmunamál þjóðarinnar. Til dæmis um þetta má nefna nýlega fyrirspurn frá Össuri til landbúnaðarráðherra þar sem hann saumaði heldur betur að ráðherranum:
125. löggjafarþing 1999-2000.
Þskj. 567 317. mál.
Fyrirspurn til landbúnaðarráðherra um varðveislu sjaldgæfra hrossalita.
Frá Össuri Skarphéðinssyni.
Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir að örsjaldgæfir litir, einkum litförótt, hverfi úr íslenska hrossastofninum?
En Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er ekki síður fimur bardagamaður en Össur og þrátt fyrir þessa erfiðu fyrirspurn frá þingmanninum var Guðni fljótur til svars: „Ef minni mitt svíkur mig ekki þá minnir mig að ég hafi talið hátind sköpunarverksins vera konuna en ekki hestinn.“
Þetta ágæta svar Guðna breytir því þó ekki að með slíkri fyrirspurn hefur Össur rækilega sýnt fram á að hann maður til að taka við forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum. Í þættinum Silfri Egils í gær velti stjórnandinn Egill Helgason því upp hvort Össur ætti ef til vill við trúverðugleikavanda að stríða. Ýmsum kann að þykja að svo sé, en þeir hafa sennilega ekki kynnt sér hin merku þingmál sem hann hefur staðið fyrir og hin þungu lóð sem hann hefur lagt á vogarskálarnar.