Þriðjudagur 7. mars 2000

67. tbl. 4. árg.

Notkun öryggisbelta í bílum er yfirleitt til þess fallin að draga úr líkum á slysum á fólki. Þetta er öllum kunnugt. Hins vegar eru skiptar skoðanir um það hvort þetta réttlæti það að ríkið neyði fólk til að spenna beltin. Á ríkið að vera í hlutverki uppalanda fullorðins fólks eða er heppilegra að það láti fullorðnu fólki eftir að taka ákvarðanir fyrir sig sjálft? Margir telja að ríkið eigi að vera í hlutverki uppalandans og þeir hafa oft á tíðum verið í meirihluta á Alþingi. Í Michigan fylki í Bandaríkjunum eiga þeir skoðanabræður sem ætla nú á föstudaginn að herða reglur um notkun öryggisbelta og leyfa í fyrsta sinn að bílar séu stöðvaðir og ökumenn sektaðir ef beltin eru ekki spennt.

Ýmis mannréttindasamtök í fylkinu telja að með þessu sé hið opinbera að ganga of langt og að slíkar reglur minni um of á Stóra bróður í bókinni 1984. Vissulega er ríkið að ganga of langt með því að segja fólki hversu örugglega það eigi að koma sér fyrir í bíl sínum. Það að einn maður álíti skynsamlegt að annar maður spenni öryggisbelti á ekki að þýða að settar verði um það reglur. Hægt er að kynna fyrir fólki þá áhættu sem það tekur með því að aka án bílbeltis, en lengra má ekki ganga. Hér á landi er umræða um slík mál yfirleitt of lítil og réttur manna til að fá að vera í friði og ráða eigin lífi oft á tíðum fótum troðinn.

Ástæða þess að fáir nenna að ergja sig yfir því þó slíkar reglur séu settar er sjálfsagt meðal annars sú að í hvert sinn sem ríkið setur slíka reglu er um lítið skref að ræða. Ríkið hirðir ekki stóran hluta ákvörðunarréttar manna með einum löngum lagabálki, enda er hætt við að þá heyrðist hljóð úr horni. Þess í stað verða mörg slík lög til á löngum tíma, eitt og eitt í einu. Þess vegna er mikilvægt að fólk taki afstöðu gegn yfirgangi hins opinbera, hversu smár sem hann kann að vera í það og það skiptið. Hið opinbera verður að hafa skýrar og mikilvægar ástæður til að skerða réttindi fólks. Sú ástæða að fullorðið fólk geti ekki haft vit fyrir sér sjálft á ekki að nægja.