Nú er útlit fyrir að Helgi Hjörvar og félagar ætli sér að hækka tekjur sínar verulega á næstunni. Til stendur að hækka nefndarlaun hjá borginni úr um 40.000 krónum á mánuði upp í 65-85.000 krónur. Nefndarformenn fá tvöfalda þessa upphæð og munu því hækka um 50-90.000 krónur á mánuði fyrir hverja nefnd. Á móti segir Helgi að fækka eigi nefndum eitthvað og heldur hann því fram að heildarkostnaður vegna nefndanna geti jafnvel lækkað við þessa hækkun launanna! Þetta er mjög trúleg kenning hjá Helga. Ástæða er til að taka álíka mikið mark á henni og loforði sem Helgi gaf fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar um „lækkun gjalda á Reykvíkinga“. Staðreyndin þá var sú, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri missti út úr sér eftir kosningar, að aldrei stóð annað til en að gjöld á borgarbúa yrðu hækkuð. Það er bara ekki eitthvað sem frambjóðendur viðurkenna fyrir kosningar, svo vísað sé í orð borgarstjóra.
Staðreyndin er vitaskuld sú að Helgi og félagar eru að skammta sér hærri tekjur og það er gert á kostnað skattgreiðenda eins og við er að búast. En skattgreiðendur skipta ekki máli frekar en fyrri daginn, þeirra hlutverk er aðeins að sjá til þess að skattaprinsarnir Helgi og Hrannar auk Ingibjargar Sólrúnar og kollegar þeirra geti haft það gott fjárhagslega um leið og þau taka ákvörðun fyrir hönd borgarinnar um hækkun gjalda og söfnun skulda. Vafalaust verður þeim rökum svo teflt fram til varnar þessari hækkun að starf borgarfulltrúa sé orðið svo viðamikið vegna mikilla umsvifa borgarinnar. En hver bað um öll þessi umsvif?
Beinar og óbeinar tekjur ríkisins af bílum voru 27,5 milljarðar króna á síðasta ári eða um 15% af tekjum ríkisins. Hér í Vef-Þjóðviljanum hefur ítrekað verið bent á afleiðingar þessarar yfirgengilegu skattheimtu á bifreiðaeigendur. Skattarnir koma í veg fyrir að fólki endurnýi bíla sína. Gamlir bílskrjóðar eru hættulegir í umferðinni. Öryggisbúnaður þeirra er lakari en í nýjum bílum, sá búnaður sem er til staðar er slitinn og aksturseiginleikar orðnir lakir. Mengun frá gömlum bílum er margfalt meiri en frá nýjum. Þeir eru farnir að brenna smurolíu og eldsneytisbruni er ófullkominn. Eldri vélargerðir þurfa þar að auki meira eldsneyti. Engu að síður hafa ýmsir stjórnmálaflokkar það í stefnuskrám sínum að hækka skatta á bifreiðaeigendur og er skemmst að minnast loforða Samfylkingar og vinstri-grænna þess efnis fyrir síðustu þingkosningar.