Laugardagur 29. janúar 2000

29. tbl. 4. árg.

Ef marka má fréttir kom ríkislögmaður fram með afar athyglisverða röksemd í máli Kios Briggs gegn íslenska ríkinu. Kio vill fá bætur fyrir að hafa verið látinn dúsa saklaus (til upprifjunar má nefna að hann var sýknaður af því að hafa flutt inn fíkniefni) í fangelsi hér á landi í tæpa níu mánuði. Ríkislögmaður er hins vegar þeirrar skoðunar að hlegið yrði að íslenskum dómstólum út um allan heim ef hinn sýknaði fengi bætur og því sé ekki hægt að verða við kröfunni. Þennan meinta álitshnekki erlendis er auðvitað sérstaklega mikilvægt að taka með í reikninginn og þess vegna er líka nauðsynlegt að taka málið úr höndum dómstóla og fela það bærum aðila. Helst verður séð að Ferðamálaráð sé til þess fallið að fella úrskurð í skaðabótamáli Kios. Mun málflutningur fyrir Ferðamálaráði líklega hefjast innan skamms.

„Ég lýsti því yfir í síðustu kosningabaráttu að ég vildi að það lægi ljóst fyrir hverjir styrktu stjórnmálaflokkanna og við það stend ég,“ er haft eftir Margréti Frímannsdóttur í frétt í Degi-Tímanum í fyrradag. Margrét er sem sagt enn og aftur að halda því fram að í hennar flokkum og framboðum sé opið bókhald. Þó liggur fyrir að svo er ekki, hvorki í Alþýðubandalaginu þar sem hún er formaður né í Samfylkingunni svokölluðu þar sem hún er talsmaður. Hún neitar að svara ítrekuðum fyrirspurnum flokksmanna Alþýðubandalagsins um það hvernig á því standi að skuldir flokksins hafi allt í einu hækkað um 20 milljónir króna á árinu 1995 frá því sem gefið hafði verið upp og hún neitar að ræða ásakanir um meint fjármálamisferli fyrrum forystumanna. Aðspurð gefur hún til dæmis ekki heldur upp stuðning Íslenskrar Erfðagreiningar við Samfylkinguna. Vandséð er hvernig orð og efndir gætu farið minna saman.

Þrátt fyrir þetta láta fjölmiðlar sér vel líka að Margrét láti gamminn geysa um opin fjármál flokka. Dagur-Tíminn lætur sig meira að segja hafa það í fyrrnefndri frétt að segja að sumir flokkanna hafi sín fjármál opin og nefnir Alþýðubandalagið sem dæmi um slíkan flokk. Vonandi eru þetta ekki vísvitandi ósannindi blaðsins heldur vanþekking.