Föstudagur 28. janúar 2000

28. tbl. 4. árg.

Alþýðusamband Íslands fer fram á það af ríkisvaldinu að bæði persónuafsláttur og tekjuskattshlutfall hækki. Svo vill það minnka tekjutengingar en hækka barnabætur. Fjármálaráðherra vill skoða tillögurnar nánar áður en hann leggur mat á þær, en það er í raun alveg óþarfi. Það er ágætt, og raunar mikilvægt, að minnka tekjutengingar, en aðrar tillögur eru til þess fallnar að gera skattkerfið verra en það er í dag og þeim verður að hafna. Hækkun persónuafsláttar og skatthlutfalls þýddi að erfiðara yrði fyrir launamenn að auka tekjur sínar og mundi þessi breyting því gera kerfið meira vinnuletjandi en nú er. Skatthlutfallið er í dag rúmlega 38% sem þýðir að menn greiða í skatt rúmlega 38 krónur af hverjum 100 sem þeir vinna sér inn. Við þetta bætist 7% hátekjuþrep ef skattgreiðandinn er með sæmileg laun. Verði skatthlutfallið hækkað er orðið stutt í að menn greiði meirihluta tekna sinna beint í ríkissjóð og við bætast svo allir óbeinu skattarnir og gjöldin. Það sem ríkið ætti að gera, og það er alveg óháð þeim kjarasamningum sem framundan eru, er að lækka skatthlutfallið verulega til að mönnum finnist þeir ekki eingöngu vera að vinna fyrir ríkið.

Í DV í gær er í dálknum Með og á móti spurt út í afstöðu til sjómannaafsláttarins. Pétur H. Blöndal þingmaður lýsir sig algerlega andvígan honum eins og öðrum undanþágum í skattkerfinu. Þetta er ánægjulegt viðhorf hjá þingmanninum og ef sjómannaafslátturinn yrði lagður niður mætti líklega lækka tekjuskattshlutfallið um eitt prósentustig. Miklu nær væri fyrir ASÍ að beita sér fyrir slíku réttlætismáli sem kæmi félagsmönnum þess vel, en að berjast fyrir breytingum sem minnka möguleika þeirra til að hækka útborguð laun sín.

Hitt er svo annað mál að ekki er heppilegt að verið sé að draga ríkisvaldið inn í kjarasamninga eins og svo oft hefur verið gert. Ríkisvaldið á að búa til almennar leikreglur fyrir fólk til að fara eftir, þar á meðal hina svokölluðu aðila vinnumarkaðarins. Þar sem tengsl ríkisvaldsins við atvinnulífið hafa verið mest hefur það dregið úr þrótti atvinnulífsins og gert stöðu efnahagsmála í viðkomandi löndum verri. Í Frakklandi og Þýskalandi hafa tengsl ríkis og aðila vinnumarkaðarins t.d. verið mikil og hefur atvinnulífið liðið fyrir það. Í Bandaríkjunum hefur þessu hins vegar verið haldið meira aðskildu og þar er kraftur í atvinnu- og efnahagslífi og hefur verið óslitið frá því um miðjan síðasta áratug þegar Reagan forseti lækkaði tekjuskattshlutfallið þar í landi.