Í síðustu viku var tilkynnt um hvaða einstaklingar hlytu styrk úr kvikmyndasjóði, en sjóðurinn er í eigu ríkisins og fjármagnaður með skattfé. Þeir einstaklingar einir fá styrk sem náð hljóta fyrir augum úthlutunarnefndar sjóðsins. Í kastljósþætti ríkissjónvarpsins var úthlutun sjóðsins gerð að umræðuefni og þar sagði Björn Brynjólfur Björnsson, formaður félags íslenskra kvikmyndagerðarmanna, að sjóðurinn væri forsenda íslenskrar kvikmyndagerðar og gagnrýni á ríkisstyrki til kvikmyndagerðar svaraði hann með því að framleiðslan yrði ósköp einhæf ef markaðurinn einn fengi að ráða því hvaða myndir yrðu gerðar.
Þessi skoðun formannsins er athyglisverð í ljósi greinar, um hinn fyrrum tékkneska útlaga Milos Forman, í Morgunblaðinu síðastliðinn Sunnudag. Í greininni er vitnað í viðtal við Milos Forman í tímaritinu Premiere þar sem hann segir aðspurður hvernig það hafi verið að flytja frá heimalandinu og starfa innan Hollywood kerfisins: „Þrýstingurinn sem maður finnur fyrir í landi þar sem kommúnistar eru við stjórn er hugmyndafræðilegur en ekki markaðsfræðilegur. Ef þú aðhylltist réttu pólitísku hugmyndafræðina fékkstu alla þá peninga sem þú þurftir frá stjórnvöldum til að gera þínar bíómyndir. Og myndin þurfti ekki að græða eina krónu. Ég kann miklum mun betur við þrýsting markaðarins en pólitískan þrýsting vegna þess að þegar þú starfar undir pólitískum þrýstingi ertu kominn upp á náð og miskunn hugmyndafræðinga en í hinu tilvikinu áttu allt þitt undir fólkinu sjálfu.“
Milos Forman flúði til Bandaríkjanna eftir innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu 1968 og gerði eftir það meðal annars myndirnar Gaukshreiðrið (One flew over the cuckoo’s nest), Hárið (Hair), Amadeus og Ákæran gegn Larry Flint (The people v.s. Larry Flint). Þetta getur varla talist einhæf framleiðsla.