Í vikuritinu Vísbendingu í vikunni segir: „Í ljós kemur að kostnaður við forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar er á fimmta tug milljóna, fyrst og fremst greiddur af fyrirtækjum. Ekkert liggur fyrir um það hver þau eru, enda kannski engin ástæða til þess nema í ljós kæmi að þau krefðust þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Æ sé gjöf til gjalda, og þau gætu óskað eftir heimboðum frá forsetanum fyrir viðskiptavini sína, auk þess að sjást á myndum með forsetanum og þiggja frá honum veislur. Nýlega hefur verið talað um stórar gjafir til ákveðinna stjórnmálaflokka frá Íslenskri erfðagreiningu en því er staðfastlega neitað enda bæði flokknum og fyrirtækinu til hnjóðs ef svo væri.
Einu óupplýstu fjármál stjórnmálaflokks hér á landi eru því fjármál Alþýðubandalagsins frá 1995. Hvorki núverandi né fyrrverandi formaður hafa viljað svara alvarlegum ásökunum um misferli í þeim efnum. Reynslan frá Þýskalandi er sú að slík mál geta verið jarðsprengja sem springur þegar minnst varir.“
Þessi pistill úr Vísbendingu fær menn óneitanlega til að leiða hugann að veislu sem Ólafur Ragnar Grímsson bauð ákveðnum aðilum úr viðskiptalífinu til á Bessastöðum. Þar var þá einnig staddur forstjóri kauphallarinnar í New York en ekki er ljóst hvers vegna forsetinn bauð þeim ágæta manni hingað og ef til vill segir þetta furðulega boð okkur ekkert annað en að forsetaembættið verður æ undarlegra.
Hitt sem fjallað er um í pistli Vísbendingar tengist einnig Ólafi Ragnari Grímssyni, og þá nánar tiltekið viðskilnaði hans sem formaður Alþýðubandalagsins árið 1995 en þá var fullyrt að skuldir flokksins væru 30 milljónir króna. Þegar bókhaldið hafði verið skoðað betur voru skuldirnar orðnar 50 milljónir króna. Félagar í Alþýðubandalaginu hafa spurt að því í blaðagreinum og í bréfum til forystu Alþýðubandalagsins hverju þetta sæti án þess að fá nokkur svör.