Afríkuríkið Zimbabwe býr nú við mikinn orkuskort. Eldsneyti er skammtað og þurfa menn að bíða í yfir þrjár klukkustundir til að fá 20 lítra skammt. Þetta hefur ekki aðeins áhrif á ökumenn heldur á allt þjóðlífið, t.d. verksmiðjur sem hafa þurft að draga úr framleiðslu sinni. Að sögn tímaritsins The Economist er þetta ástand dæmi um ríkisafskipti. Helsta ástæðan fyrir ástandinu er að Ríkisolíufélaginu hefur undanfarin tvö ár verið gert að selja innflutta olíu á undir kostnaðarverði. Ríkisrekna raforkufélaginu hefur sömuleiðis verið fyrirskipað að selja innflutta raforku á verði sem veldur því taprekstri.
Þessi afskipti hins opinbera hafa nánast þurrkað upp gjaldeyrisforða landsins og gert það að verkum að stutt er í að enginn mun selja vörur til landsins nema gegn staðgreiðslu. Af þessum heimatilbúna vanda í Zimbabwe má margt læra, en þó augljóslega það að inngrip hins opinbera í verðmyndun eru ekki heillavænleg. Þó íbúar landsins hafi um hríð virst fá ódýrari orku var það aðeins blekking. Þeir urðu að greiða fyrir hana síðar – og þá dýru verði.
Og þegar Vefþjóðviljinn er farinn að tjá sig um orkumál í fjarlægum löndum getur hann ekki stillt sig um að nefna fréttaflutning Ríkissjónvarpsins af vetnisleiðangri nokkurra Íslendinga til Þýskalands en hann hefur verið svo ítarlegur (m.a. í báðum fréttatímum í gærkvöldi) að sjónvarpsáhorfendur ættu að vera komnir með það á hreint að vetni sé framtíðarorkugjafinn. Vetni hefur þó einn ókost sem orkugjafi og láðst hefur að nefna í fréttum Ríkissjónvarpsins, nefnilega þann að vetni þarf að framleiða með því að nota aðra orkugjafa eins og olíu, kol, kjarnorku eða íslensk fallvötn. Vetnið er því engin viðbót við þær orkulindir sem við höfum í dag heldur geymsla fyrir orku og það fremur óhagkvæm geymsla enn sem komið er.
Undanfarin ár hefur Institute for Humane Studies boðið upp á vikulöng sumarnámskeið um stjórnmál fyrir ungt fólk. Áhersla er lögð á hugmyndafræði fremur en dægurþras stjórnmálanna. Fyrirlestrar eru afar fjölbreyttir og fjalla um heimspeki, hagfræði, sögu, lög o.fl. Allnokkrir Íslendingar hafa sótt þessi námskeið undanfarin ár og borið þeim vel söguna. IHS greiðir allan kostnað fyrir þátttakendur á meðan námskeiðinu stendur en menn þurfa að greiða ferðakostnað sjálfir. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu IHS en Andríki getur einnig veitt þeim sem hafa hug á að sækja um aðstoð.