Í dag eru þrjú ár frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst. Blaðið hefur leitast við að tala máli einstaklingsfrelsis og því hvatt til þess að hið opinbera láti sem minnst fyrir sér fara. Þó saga Vefþjóðviljans sé ekki löng er langt síðan menn gerðu sér ljóst hve nauðsynlegt er að þessi sjónarmið eigi sér óhvikula málsvara.
Senn eru liðin 50 ár frá því Samband ungra sjálfstæðismanna hóf útgáfu Stefnis, þess stjórnmálatímarits sem lengsta sögu á, þeirra sem nú koma út. En áður en sambandið hóf þá útgáfu hafði Stefnir komið út á vegum Magnúsar Jónssonar guðfræðiprófessors. Í inngangi fyrsta heftisins, sem út kom árið 1929, ritaði Magnús:
„Stefnir vill ræða þjóðmál og fræða um þau, frá sjónarhóli einstaklingsframtaks og athafnafrelsis. Þetta er nú sú stefna sem ráðið hefir undanfarandi. Sú stefna hefir á skömmum tíma borið mannkynið áfram til stórstígari framfara í verklegum efnum og meiri auðsældar og velmegunar, en nokkur önnur stefna hefir gert. Það mætti því ætla, að hana væri óþarft að ræða. Hún sæti föst í sessi og þar væri ekki fræðslu þörf.
En sannleikurinn er sá, að hér er langt frá að svo sé.
Mennirnir eru breytingagjarnir. Þegar eitthvað hefir staðið um tíma, vilja menn skifta um og fá annað. Er þá oft og einatt hrapað að breytingum, sem leiða til óláns og ófarsældar.
Stefnir vill ræða þessi mál við lesendur sína. Hann vill sýna fram á, að atvinnufrelsi og einstaklingsframtak er ekki úreltir hlutir, sem menn eru að verja af einhverri fastheldni og þráa, heldur miklu fremur takmark, sem barizt hefir verið fyrir um langan tíma, en hefir ekki náðst enn til fulls. Hann vill leitast við að gera mönnum þann sannleik ljósan, að allar takmarkanir á framleiðslu og hömlur á viðskiftum eru takmarkanir á sjálfsbjargarviðleitninni og leiða alveg óhjákvæmilega til þess, að þjóðin verður fátækari og ver stödd.“
Þó rúm sjötíu ár séu liðin frá því þessi orð voru rituð, er enn þörf þess blaðs sem helgar sig þessari baráttu. Enn er nauðsynlegt að benda á þau sannindi sem hér var vikið að. Slík útgáfa, svo brýn sem hún er, mun ætíð treysta á velvild og áhuga lesendanna. Þess sér einnig stað í niðurlagsorðum þess formála að Stefni sem áður var nefndur. Á afmæli sínu er Vefþjóðviljanum ljúft að gera þau orð að sínum:
„Stefnir er ráðinn í því að verða ekki gróðafyrirtæki, heldur láta alla velgengni, sem honum kynni að hlotnast, koma fram í meiri stærð, betri frágangi og yfirleitt því, að verða æ betri og betri gestur, hvar sem hann kemur.“