Michael Portillo þingmaður breska Íhaldsflokksins og fyrrverandi varnarmálaráðherra flutti ræðu um Bretland, Evrópu og umheiminn á ráðstefnu á vegum IEA á síðasta ári en ræðan er birt í nýjasta hefti Economic Affairs sem IEA gefur út. Portillo er einn af þeim sem telur að Bretland eigi að hafa frjáls viðskipti við Evrópu án þess að til frekari stjórnmálalegs samruna komi. Í ræðunni vekur hann athygli á því að Evrópa hafi dregist verulega aftur úr Bandaríkjunum á síðustu áratugum. Þetta stafi ekki síst af því hve evrópskar reglur um atvinnurekstur séu ósveigjanlegar.
„Ég velti því fyrir mér hvort fólk geri sér almennt grein fyrir því hve framsækið og kraftmikið bandarískt efnahagslíf er í dag. Þótt öllum sé kunnugt um staðreyndir eins og þær að frá 1970 hafa orðið til 50 milljónir nýrra starfa í Bandaríkjunum en einungis 5 milljónir í Evrópusambandinu (og stór hluti þeirra hjá hinu opinbera) eru margir innan Evrópusambandsins sem halda því fram að þessi mikla fjölgun í Bandaríkjunum hafi haft misskiptingu í för með sér og flest nýju störfin gangi út á að steikja hamborgara. Þetta er þó fjarri því að vera rétt og fjölgun starfa í Bandaríkjunum má fyrst og fremst skýra með því að þau hafa tekið forystu í upplýsingatækni. Ýmsir innan Evrópusambandsins séu hins vegar svo skelkaðir yfir þessum samanburði og hve vel hann dregur fram lélega frammistöðu sambandsins að þeir grípa til rangfærslna af þessu tagi. Til dæmis er velta Microsoft álíka mikil og þjóðarframleiðsla Rússlands og með sama áframhaldi verður velta Microsoft svipuð og þjóðarframleiðsla Bretlands árið 2005. Í Bandaríkjunum eru nú 15 milljarðamæringar sem urðu ríkir á rekstri fyrirtækja sem voru ekki til fyrir 20 árum. Flest stærstu fyrirtækin í Bandaríkjunum í dag eru líka innan við 20 ára. Öll 10 stærstu fyrirtækin í Evrópu hafa hins vegar verið til fyrir 20 árum.“, segir Portillo.
Evrópusinnar, bæði hér á Íslandi og í Bretlandi, spyrja oft þeirrar spurningar með nokkrum þjósti hvort menn ætli ekki að vera Evrópubúar. Portillo svarar þessari spurningu með þessum hætti: „Að sjálfsögðu verðum við Evrópubúar enda er það hluti af menningu okkar og staðsetningu. En ættum við ekki frekar að spyrja að því hvort við ætlum bara að vera Evrópubúar eða huga að öðrum heimshlutum um leið?“ Og hann heldur áfram: „Bretland er ekki aðeins Evrópuþjóð heldur einnig Atlantshafsþjóð, enskumælandi, hluti af Breska samveldinu og með tengsl við alla heimshluta.“
Portillo spyr hvort Evrópusambandið sé líklegt til að bjóða upp á þann sveigjanleika sem þarf til að takast á við samkeppnina frá Bandaríkjunum og telur litlar líkur á því. Hann gefur einnig lítið fyrir þau rök að þeir sem taki ekki þátt í Evrópusambandinu að fullu muni glata áhrifum. Hann nefnir sem dæmi að á meðan Bretar voru ekki þátttakendur í félagsmálapakka Maastrich sáttmálans hafi þeir haft mikil áhrif á önnur ríki Evrópu sem voru treg til að taka upp hinar ósveigjanlegu reglur um vinnumarkaðinn þar sem störf myndu flytjast til Bretlands. Eftir að Bretar gerðust aðilar hafi þeir glatað þessum áhrifum. Að lokum víkur Portillo að þeim sem halda því fram að með því að bræða saman þjóðríki, eins og Evrópusambandið stefni að, megi koma í veg fyrir uppgang þjóðernishyggju. Dæmin frá fyrrum Sovétlýðveldum og Júgóslavíu beri vitni um hve varasamt það er að þröngva stjórnmálasamruna upp á þjóðir. Það geti verið olía á eld þjóðernishyggjunnar.