Laugardagur 22. janúar 2000

22. tbl. 4. árg.

Að undanförnu hafa borist fréttir af því að mikið sé af tækjum og tólum, fjórhjólum, vélhjólum, vélsleðum o.þ.h. hér sem flutt hafa verið inn án þess að greiða af þeim tolla og aðra skatta. Tollayfirvöld eru einnig að rannsaka innflutning á bílum þar sem grunur er um að þeir hafi verið fluttir inn á fölsuðum sölunótum en því lægri sem innkaupsverð bíls er því lægri tollar og skattar leggjast á hann þar sem þeir eru hlutfallslegir. Vef-Þjóðviljinn hefur svo sem oft bent á það áður að besta ráðið gegn skattsvikum sé að hafa skatta svo lága að það taki því vart að svíkjast um að greiða þá. Iðnaðarmaður, sem þarf að greiða 38-45% tekjuskatt af tekjum sínum, 24,5% af útseldri vinnu og svo skerðast ýmsar bætur einnig við auknar tekjur, getur auðvitað boðið viðskiptavinum sínum verulegan afslátt gegn því að greiðslunótu sé sleppt (og ef hann er trúir áróðri umhverfisverndarsinna telur hann sig vafalaust vera að bjarga skógum með minni pappírsnotkun). Miðað við þær miklu tekjutengingar sem eru á ýmsum bótum, vaxtabótum, barnabótum, ellilífeyri, og námslánum má jafnvel gera ráð fyrir að lítið sem ekkert verði eftir í vasa iðnaðarmannsins.

Innflytjandi bíls stendur frammi fyrir því að 40-60% vörugjald leggst á innkaupsverð og svo 24,5% virðisaukaskattur á söluverð. Hann þarf svo annaðhvort að greiða 10% fjármagnstekjuskatt (eftir að fyrirtækið greiðir 30% tekjuskatt) eða 38-45% tekjuskatt af söluhagnaði. Með slíkum ofursköttum er beinlínis verið að egna menn til skattsvika og það kemur ekki á óvart að tollayfirvöld eyði nú fé skattgreiðenda í að rannsaka grun um að innflutningsverð notaðra bíla sé gefið upp mun lægra en það var í raun.