Föstudagur 21. janúar 2000

21. tbl. 4. árg.

Glæpatíðni hefur lækkað mjög í Bandaríkjunum frá árinu 1991. Bruce L. Benson, prófessor við Florida State University, veltir því fyrir sér í grein í nýjasta tölublaði Ideas on Liberty (sem áður hét The Freeman) af hverju þetta stafi. Vissulega á gott efnahagsástand þar hlut að máli en góðir atvinnumöguleikar koma vafalaust í veg fyrir að einhverjir leiðist út í glæpi. Breytt aldursdreifing hefur líklega sín áhrif en ungu fólki hefur fækkað í hlutfalli við eldra fólk og flestir glæpamenn eru í yngri kantinum. Lögreglan hefur einnig breytt um starfsaðferðir og leggur nú meiri áherslu á gæslu í einstökum hverfum. Benson telur að allar þessar skýringar eigi sinn þátt í lækkandi glæpatíðni en bendir jafnframt á að almenningur hafi tekið málið föstum tökum með því að kaupa sér gæslu og öryggisbúnað. Árið 1970 voru álíka margir öryggisverðir og lögregluþjónar í Bandaríkjunum en nú eru öryggisverðirnir þrefalt fleiri en ríkislöggurnar. Gríðarleg aukning hefur einnig átt sér stað í framleiðslu hvers kyns þjófavarna- og öryggiskerfa.

Benson vitnar til viðamikillar rannsóknar sem gerð var árið 1992 á áhrif lögreglu annars vegar og einkarekinnar öryggisgæslu hins vegar á glæpi í 124 borgarhlutum. Rannsóknin leiddi í ljós að það hafði lítil áhrif á glæpatíðni þótt lögreglumanni væri bætt við á ákveðnu svæði en aukin öryggisgæsla á vegum einstaklinga og fyrirtækja dró hins vegar úr glæpum. Þessi niðurstaða á sinn þátt í því að lögreglan hefur breytt starfsaðferðum sínum. Hér má því segja að markaðurinn hafi gripið inn í þegar ríkið gat ekki veitt þá þjónustu sem það þó hafði tekið að sér.