Fimmtudagur 20. janúar 2000

20. tbl. 4. árg.

Vef-Þjóðviljinn hefur stundum vikið að því nokkrum orðum að umhverfismál verði notuð sem helsta afsökun næstu aldar fyrir viðskiptahömlum og útþenslu ríkisins. Þannig muni það sjást æ oftar að innlend framleiðsla verði vernduð gegn samkeppni frá innflutningi á „vistvænum“ forsendum. En við þurfum ekki að bíða næstu aldar. Í vikunni svo gott sem bannaði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra innflutning á áburði með því að lækka leyfileg mörk á innihaldi kadmíums niður í 10-20% af því sem flest Evrópusambandslönd miða við. Ein af þeim röksemdum sem ráðherrann nefnir við Morgunblaðið í gær máli sínu til stuðnings er að íslenskt kjöt seljist í dag á 70-80% hærra verði á heimsmarkaði en kjöt frá Nýja-Sjálandi vegna þess að hér hafi verið notaður áburður með lægra kadmíuminnihaldi. Gefum okkur að þetta sé rétt hjá ráðherranum, bæði að íslenskt kjöt seljist á heimsmarkaði og á háu verði. Ráðherrann er þá sumsé að banna íslenskum bændum að fella framleiðslu sína í verði um 40% á heimsmarkaði! Bændur eru vissulega vanir boðum og bönnum í landbúnaði en þetta er nýtt af nálinni. Við skulum vona að þetta sé ekki til vitnis um það álit sem Guðni Ágústsson hefur almennt á viðskiptaviti íslenskra bænda.

Að sjálfsögðu hefur ráðherrann ekki bent á neinar rannsóknir sem styðja að Íslendingar þurfi svo mikið lægri viðmiðunarmörk en aðrir. Ef hann verður inntur eftir slíkum rannsókum getur hann beitt því svari fyrir sig sem umhverfisverndarsinnar telja algilt og hafið yfir allan vafa: „Náttúran á að njóta vafans.“ Ráðherrann segir hins vegar að neytendur geri miklar kröfur um vistvæna framleiðslu og nýju mörkin séu fyrir slíka framleiðslu. Þá kemur aftur að viðskiptaviti íslenskra bænda. Hvað ætli gerist ef íslenskir bændur standa frammi fyrir því að neytendur krefjist vistvænnar framleiðslu án kadmíums? Munu þeir ekki ausa kadmíumi á öll tún? Það heldur Guðni Ágústsson. Að öðrum kosti hefði hann ekki lagt sérstakt bann við því.

Formaður Alþýðubandalagsins á Seltjarnarnesi, Páll Vilhjálmsson, stakk niður penna í Degi í gær. Páll var um árið ritstjóri Vikublaðsins sem var arftaki gamla Þjóðviljans og einnig um tíma ritstjóri Helgarpóstsins. En Alþýðubandalagið hafði einmitt keypt 40% Helgarpóstsins í gegnum hlutafélagið Tilsjá án þess að nokkur fengi að vita af því enda bókhald flokksins galopið, eða þannig, og einfalt að fylgjast með hverri krónu. Satt best að segja vandar Páll Samfylkingunni ekki kveðjurnar í þessari grein og skrifar meðal annars: „Um fyrirsjánlega framtíð verður Samfylkingin drusla sem menn láta sig helst ekki sjást með á almannafæri.“ Fleira gladdi fylkingarmenn í gær en þessi kveðja Páls. Árni Þór Sigurðsson varaborgarfulltrúi R-listans og annar varaþingmaður Fylkingarinnar í Reykjavík gekk til liðs við vinstri græna. Það er ekki undarlegt að þingmenn Fylkingarinnar leggi fram fyrirspurnir um horfna menn.