Á því ári sem nú er liðið bar mjög til tíðinda í íslenskum stjórnmálum að mati margra vinstri manna. Fjölmiðlamenn voru ekki síður uppteknir af hinni stóru frétt. Hér er að sjálfsögðu um að ræða hina meintu sameiningu vinstri manna, en þegar á hólminn var komið varð heldur minna úr öllu saman en til stóð. Venjulegu fólki var atið allt í aðdraganda hinnar miklu sameiningar með öllu óskiljanlegt. Sameining vinstri manna virtist snúast um að sumir Alþýðubandalagsmenn kærðu sig ekki lengur um að vera í þeim flokki og vildu í Alþýðuflokkinn. Tókst þeim að fá Alþýðuflokksmenn til að samþykkja að kalla inngöngu þeirra sameiningu flokkanna, og úr varð hin svokallaða Samfylking. Í henni eru Alþýðuflokkur, sem allt hefur gefið eftir – m.a.s. forystuhlutverkið – til nýliðanna, Alþýðubandalagið að nafninu til og svo nokkrar konur sem ekki gátu lengur haldið lífi í Kvennalistanum. Hið raunverulega Alþýðubandalag, sem nú kallast Vinstri grænir, lifir ólíkt fyrrnefndri fylkingu ágætu lífi um þessar mundir og hefur málefnalega sterkari stöðu, þó afstaða til málefna sé vissulega röng hvenær sem færi gefst. Þetta er rifjað upp hér því um áramót er venja að leita til forystumanna stjórnmálaafla á Alþingi og fá þá til að líta yfir farinn veg og rýna í framtíðina og eftir allt fárið í fjölmiðlunum fyrir þingkosningar síðasta vor hefði mátt búast við að nýtt fólk og talsmenn nýrra flokka viðruðu skoðanir sínar um þessi áramót. Svo er sem sagt ekki því fjórflokkurinn gamli er á sínum stað. Það vekur þó óneitanlega athygli og hlýtur að vera Alþýðuflokksmönnum umhugsunarefni, sérstaklega þeim sem telja sig standa hægra megin í hinu pólitíska litrófi, að talsmaður þeirra um þessi áramót er formaður Alþýðubandalagsins, Margrét Frímannsdóttir.
En hvað skyldu flokkarnir fjórir þá hafa fram að færa um þessi áramót. Morgunblaðið leitar eftir svörum við því eins og venja er til. Einn „flokkur“ auk fyrrnefndra fjögurra á sæti á Alþingi, en það er flokkur Sverris Hermannssonar. Um málflutning Sverris þarf ekki að hafa mörg orð, bæði vegna þess að „flokkur“ hans skiptir engu máli í íslenskum stjórnmálum og eins vegna þess að þar er sama gamla platan spiluð. Sverrir og félagar eiga sem kunnugt er í raun þá einu ósk að fá að eyðileggja hagkvæmt stjórnkerfi fiskveiða Íslendinga.
Mest skemmtigildi hefur lestur svara Alþýðubandalagsmannanna tveggja, Margrétar og Steingríms J. Sigfússonar. Margrét segir að „maðurinn, lýðræði, náttúra“ séu meginstef í stjórnmálum framtíðarinnar, en fær auk þess frasa að láni frá Flokki mannsins, þ.e. Péturs Guðjónssonar, og telur að „manngildi hafi nú verið skipað í óæðri sess“. Líklega er það af ótta við að manngildið yrði undir sem hún fór í aðdraganda síðustu kosninga í pílagrímsferð til Kúbu ásamt hópi skoðanabræðra. Þar hefur hún sjálfsagt ætlað sér að nema af Fidel Castro hvernig best sé að skerða mannréttindi í þágu manngildisins. Ekki er rúm hér til að fara yfir alla frasa formanns Alþýðubandalagsins, en þó er nauðsynlegt að nefna að hún telur að í byggðamálum blasi við „skipbrot nakinnar frjálshyggju“. Markaðsöflin ein hafa að hennar áliti komið við sögu í byggðamálum. Líklega hefur henni ekki enn verið sagt frá störfum Byggðastofnunar, jöfnunaraðgerðum í sambandi við húshitunarkostnað, niðurgreiddu landbúnaðarkerfi, óarðbærum jarðgöngum og svo má lengi telja um mál sem fáir frjálshyggjumenn fagna. Það þarf vissulega mikinn vilja til að fara rangt með þegar farið er að halda því fram að óheftur markaðsbúskapur hafi fengið að njóta sín í byggðamálum hér á landi.
Spaugilegt er að sjá að byltingarglæðurnar lifa en í Margréti, því hún segir í tengslum við byggðamál að við séum í raun „að hefja nýtt landnám á nýjum forsendum“. Enginn getur þó áttað sig á um hvað byltingin á nú að snúast. Áður stóð hugurinn til þess að gera byltingu öreiganna. Nú er það bylting frasanna. Flestir vona að hin síðarnefnda verði ódýrari í mannslífum talið.
Steingrímur J. Sigfússon segist vilja „rjúfa vítahring lágra launa og langs vinnudags“ á Íslandi, en virðist ekki gera sér grein fyrir að sá vítahringur, eins og hann orðar þetta, hefur verið rofinn með því að auka kaupmátt launafólks umtalsvert á síðustu árum. Áframhaldandi aukning kaupmáttar mun aðeins nást verði sjónarmið forsjárhyggjunnar og ríkisafskiptanna, sem Steingrímur stendur fyrir, ekki að veruleika. Steingrímur telur jafnframt að markmiðið eigi að vera „samábyrgt velferðarkerfi“ sem standist samanburð við það besta sem gerist annars staðar. Steingrímur á vitaskuld við hið opinbera velferðarkerfi en það stenst einmitt í dag þær kröfur sem Steingrímur segist vilja gera. Vandinn er ekki sá að hið opinbera verji of litlu fé til velferðarmála, heldur miklu frekar að umsvif hins opinbera eru of mikil á því sviði sem öðrum. Aðalatriði týnast í aukaatriðum þegar hið opinbera reynir að vera allt í öllu fyrir alla. Steingrímur er trúr sannfæringu sinni um að ríkið eigi að hafa sem mest umsvif og aðrir sem minnst, því hann hnýtir enn einu sinni í lækkanir þær sem orðið hafa á tekjuskattshlutfalli á undanförnum árum. Hvergi má vel unnið verk standa gagnrýnislaust. Helst er áberandi þegar málflutningur Steingríms er borinn saman við málflutning Margrétar að Steingrímur áttar sig á að frjálshyggjan hefur ekki komið mikið við sögu í byggðaþróun landsins. Hann veit að miklu fé hefur verið sóað – hann mundi líklega nota orðið „varið“ – í byggðamál, en telur að miklu meira fé þurfi að brenna upp fyrir þann málaflokk svo viðundandi sé.
Eins og við er að búast eru mun færri furðuleg sjónarmið sett fram hjá formönnum stjórnarflokkanna, Halldóri Ásgrímssyni og Davíð Oddssyni, en hjá hinum leiðtogunum. Það er eins og stjórnarandstaðan geri allt sem hún getur til að gera ríkisstjórninni lífið sem þægilegast og auðveldast með því að einblína á úrelt sjónarmið en láta aðra að mestu um þau mál sem gætu horft til heilla. Í stað þess að gagnrýna ríkisstjórnina með trúverðugum hætti fyrir of mikla eyðslu og ríkisumsvif heimtar stjórnarandstaðan meiri útgjöld og meiri umsvif ríkisins.
Halldór Ásgrímsson telur mikilvægt að viðhafa aðgát í ríkisfjármálum og auka sparnað þjóðarinnar. Aðgát í ríkisfjármálum réð reyndar ekki þegar útgjöld til hestamiðstöðvar eða aukin umsvif utanríkisþjónustunnar voru samþykkt. Út af fyrir sig er jákvætt að Halldór er þeirrar skoðunar að markaðshyggjan hafi fært okkur hagnað og velsæld og geti gert það áfram, eins og hann segir. Hitt er skrýtnara þegar hann segir að henni hafi oft fylgt fátækt og miskunnarleysi. Það er með þessa fullyrðingu eins og margar aðrar í stjórnmálum að líklega mundi reynast erfitt að fylgja henni eftir. Engin ástæða er til að óttast að fátækt og miskunnarleysi fylgi markaðshagkerfinu, þvert á móti hníga öll rök að því að þeim mun meira svigrúm sem einkaaðilar – þ.e. markaðurinn – fá og þeim mun minna sem svigrúm ríkisins er, því betur farnist öllum almenningi. En það er vinsæl kenning að halda því fram að „markaðurinn“ þurfi aðhald – þetta er t.a.m. eitt hið fyrsta sem arftaki Jeltsins, Putin, hélt fram þegar hann tók við – og æði oft er það notað sem afsökun fyrir óeðlilegum inngripum í markaðsstarfsemina.
Eitt af því sem Davíð Oddsson benti á í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu er að nú sé hverfandi kostnaður við að standa utan Evrópusambandsins, en aðild yrði á hinn bóginn dýru verði keypt. Undir þetta má taka. Hann nefnir einnig að forsenda hagkvæms sjávarútvegs sé „að frjálsræði og samkeppni ríki, og markaðsaðstæður séu eðlilegar“. Þetta er afar mikilvægt að menn hafi í huga, en þá er líka rétt þegar lög um fiskveiðistjórnun eru endurskoðuð að tekið sé mið af þessum sjónarmiðum. Þá þarf til dæmis að afnema nýlegar reglur um hámarkseign á kvóta og hætta að láta Byggðastofnun úthluta hluta kvótans, svo nokkuð sé nefnt. Verði gerðar breytingar þurfa þær að vera í þessa átt til að auka enn frekar hagkvæmni kerfisins.
Í lok greinar sinnar nefnir Davíð að heillavænlegast sé að afskipti ríkisins af komandi kjarasamningum séu sem minnst. Ríkisvaldið hefur oft haft mikil afskipti af gerð kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði, en nú ætti því að vera lokið. Hlutverk ríkisins á að vera að búa atvinnulífinu góð almenn skilyrði en láta það svo afskiptalaust. Mikilvægasti stuðningur hins opinbera við þá kjarasamningagerð sem framundan er hlýtur að vera að stuðla að lækkun verðbólgunnar og koma í veg fyrir útþenslu hjá sjálfu sér. Fylgi ríkið þeirri stefnu undanbragðalaust ættu hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins að vera fullfærir um að semja sín í milli.
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs nýs árs.