ÁRAMÓTAÚTGÁFA
Eins og jafnan á þessum árstíma hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau atriði Íslandssögu líðandi árs sem síst mega gleymast.
Vitringar ársins: Liðið sem heldur að það séu aldamót í kvöld.
Raunsæismenn ársins: Þeir sem ímynda sér að hægt sé að útskýra málið fyrir vitringunum.
Uppgötvun ársins: Hópur kvenna heimsótti nektardansstaðina með skipulögðum hætti, rannsakaði starfsemina og sendi niðurstöður sínar til stjórnmálamanna og fjölmiðla. Og niðurstaðan? Á nektardansstöðum er fólk…nakið!
Heilaþvottartilraun ársins: Samkvæmt talningu Halldórs Vilhjálmssonar menntaskólakennara flutti Ríkissjónvarpið 320 fréttaskýringar um Eyjabakka. 320.
Þögn ársins I: Jóhanna Sigurðardóttir, sem betur fer.
Þögn ársins II: Tvíhöfði, ekki alveg jafn velkomin.
Afkomuviðvörun ársins: Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn
Dýrasta Lína ársins: Skattgreiðendur reiddu fram 200 milljónir í uppáhaldsfyrirtæki forseta borgarstjórnar, Helga Hjörvar, sem enn þá umgengst annarra fé af sömu fádæma virðingu og áður.
Endurkoma ársins: Hrannar B. Arnarsson snýr aftur í borgarstjórn, enda fullsannað að hann er enginn eftirbátur Helga Hjörvars í meðhöndlun fjármuna.
Mannorðshreinsun ársins: Hrannar B. Arnarsson segir að yfirskattanefnd segi að hann hafi ekki brotið mikið af lögum. Og neitar að birta úrskurð nefndarinnar, sem sé trúnaðarmál.
Ja-hérna ársins: Alþingi lýkur störfum á réttum tíma í fyrsta sinn í áratugi. Hjörleifur var heima.
Hagfræðiskilningur ársins: „Það er einföld hagfræðikenning að þegar vara er framleidd og síðan seld þá er alltaf einhver sem græðir og annar sem tapar.“ Jóna Fanney Friðriksdóttir í Veru.
Áheyrandi ársins: Haraldur Ólafsson konungur Noregs. Sem heyrði reyndar ekki vísurnar sem Hákon Aðalsteinsson „flutti honum“.
Vitjunartími ársins. Finnur Ingólfsson yfirgefur Alþingi.
Mislukkaður vitjunartími ársins: Páll Pétursson, sem hefur að eigin sögn ,,heilsu á við graðfola“ heldur störfum sínum á Alþingi áfram.
Auðvitað ársins: Guðni Ágústsson sér engin betri not fyrir 150 milljónir af skattfé en þau að styrkja hross í Skagafirði.
Óþarfi ársins: Vera Guðjóns A. Kristjánssonar og Sverris Hermannssonar á hinu háa Alþingi.
Einskismannsland ársins: Eyjabakkar.
Sigur ársins: Annað sætið í Eurovision – fyrsta sætið hefði étið upp afganginn á fjárlögum og meira til. Þá fyrst hefði þjóðin verið ,,all out of luck“.
Grátbrosleiki ársins: Dagskrá ríkissjónvarpsins (og rökstuðningur starfsmanna á nauðsyn stofnunarinnar).
Tilgangsleysi ársins: Störf Samkeppnisstofnunar.
Frumlegheit ársins: Enn eitt fíknimálið fær nafngiftina ,,Stóra fíkniefnamálið“.
Stóra fíkniefnamál ársins: Fyrstu fimm.
Mikilvægasta embætti ársins: Jafnréttisfulltrúi Landsvirkjunar.
Traustsyfirlýsing ársins: Mörður Árnason varaþingmaður Þjóðvaka var endurkjörinn varaþingmaður, nú fyrir Fylkinguna.
Flýtimeðferð ársins: Undir ritstjórn Óla Björns Kárasonar telur DV að allir menn í gæsluvarðhaldi séu sekir.
Vonbrigði ársins: DV greindi frá þeim merka atburði að Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit hefðu farið á Skalla í Hafnarfirði til að leigja sér mynd, en myndin var ekki til svo þau fóru tómhent. – Lögreglan hefur kannski gert rassíu daginn áður.
Rómantískasta stefnumót ársins: Ólafur Ragnar Grímsson fv. fjármálaráðherra, Gunnar V. Andrésson ljósmyndari DV og Dorrit vinkona ákváðu að eiga persónulega stund saman í auðninni, bara þau þrjú.
Snarræði ársins: Eftir æðisgengið kapphlaup við tímann bjargaði þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar manni sem hafði axlarbrotnað í reiðferð; maðurinn lá ósjálfbjarga í hópi ferðafélaga sinna í klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.
Ósigurvegari ársins: Sigbjörn Gunnarsson sigraði í prófkjöri Fylkingarinnar á Norðurlandi eystra og var því ekki á framboðslista hennar.
Sigurvegari ársins: Svanfríður Jónasdóttir hreppti þriðja sæti úr prófkjöri Fylkingarinnar á Norðurlandi eystra og var því í efsta sæti hennar.
Fasteignasali ársins: Guðmundur Bjarnason.
Leynilegasti kjósandi ársins: Egill Helgason varð illur þegar fulltrúar framboðs neituðu að fara út þegar Egill mætti til að kjósa. Og fór í viðtöl við alla fjölmiðla nema Víkurfréttir um það að hann vildi ekki að neinn vissi hvort hann kýs. – Í öllum kosningum héðan í frá verður fyrsta spurning manna: Er Egill kominn?
Landslið ársins: Íslenska knattspyrnulandsliðið gat sér alþjóðlega frægð með glæstum árangri. Þjálfarinn hætti þegar honum bauðst starf hjá ensku þriðjudeildarliði.
Æðsta dómstig ársins: Ríkisútvarpið áfrýjaði umdeildum dómi Hæstaréttar til Illuga Jökulssonar, sem sneri honum við.
Viðurnefni ársins: Hæstaréttardómari götunnar – viðurnefnið ber Illugi Jökulsson.
Rökstuðningur ársins: Mörður Árnason taldi að þar sem Illugi Jökulsson nefndi útvarpsþátt sinn „Frjálsar hendur“ þá mætti Ríkisútvarpið ekki skipta sér af honum. Því þá hefði hann ekki frjálsar hendur.
Bifreiðartegund ársins: BMW 750 iA. Notkun hennar var lýst refsiverð á árinu.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Tímabærasta bók ársins: Bók aldarinnar er komin út. Það gerist hvort eð er fátt markvert á næsta ári.
Harðasta afstaða ársins: Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tekur R-listann engum vettlingatökum og situr miskunnarlaust hjá í öllum málum.
Sameining ársins: Ísfélag Vestmannaeyja og Vinnslustöðin sameinuðust á árinu. Rétt eins og vinstri menn öll síðustu ár.
Ofnotuðustu frasar ársins: „Aðilar viðskiptalífsins“ sem „starfa á markaði“ og sjá þar marga „álitlega fjárfestingarkosti“. – Þetta eru réttnefnd athafnaskáld.
Helgasti staður ársins: Eyjabakkar. Eftir hópferðir sumarsins hafa samtals 100 Íslendingar séð þá. Ómar Ragnarsson talinn með.
Flakk ársins: Viku fyrir SUS-þing fluttu 50 ungir sjálfstæðismenn búferlum. Þeim líkaði illa á nýja staðnum og fluttu til baka hálfum mánuði síðar. Allir.
Tillaga ársins: Í árslok hvatti varaþingmaðurinn Örlygur Hnefill Jónsson til þess að Fylkingin á Norðurlandi-Eystra héldi aftur prófkjör fyrir næstu kosningar. Það er líka óþarfi að breyta frá því sem gefist hefur vel.
Skúbb ársins: Samkvæmt áreiðanlegum heimildum bæði Sandkorns DV og Heita potts Tímans verða Helga Jónsdóttir, Leó Löve, Halldór Guðbjarnarson, Stefán Pálsson og Páll Pétursson næsti seðlabankastjóri.
Ályktun ársins: Ólafur Fáfnir Magnússon vill endilega að borgarstjórn Reykjavíkur álykti um uppistöðulón á hálendinu. Það tengist ekki því að hann er „talsmaður umhverfisvina“.
Traust ársins: Saksóknari ríkislögreglustjóra sagði að rússneskir mafíuósar mættu ekki nota íslenskt hagkerfi til að koma illa fengnu fé í umferð. Nokkrum dögum síðar sagði forsætisráðherra hið sama. Blaðamenn Tímans töldu augljóst að slíkum ummælum hlyti að vera beint að Jóni Ólafssyni hljómplötuútgefanda.
Hrós ársins: Sverrir Hermannsson skrifaði grein um það að Guðjón A. Kristjánsson skipstjóri væri „svokallaður forystumaður sjómanna“ og „ótrúlega þægur leppur í skóm sægreifanna“.
Umburðarlyndi ársins: Tæpri viku síðar bauð Sverrir Hermannsson Guðjóni A. Kristjánssyni efsta sæti „Frjálslyndra“ á Vestfjörðum.
Mannréttindamál ársins: Guðlaugur Þór Þórðarson telur að ljósastaurar undir Esju séu mannréttindamál – fyrir Kjalnesinga.
Baráttusæti ársins: Frambjóðandi Fylkingarinnar, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson nemi, var sagður í „baráttusætinu í Reykjavík“. Vilhjálmur var í 10. sæti. Fylkingin fékk 5 menn. Vilhjálmur náði ekki kjöri.
Hógværð ársins: Liðið sem berst fyrir því að skattgreiðendur reisi fyrir það tónlistarhöll er einstakt í lítillæti sínu.
Starf ársins: Dagur B. Eggertsson hefur á árinu starfað sem ósjálfráð skrift Steingríms Hermannssonar.
Fjölmiðill ársins, Vefþjóðviljinn, sjálfráða í skrifum,
þakkar lesendum sínum samfylgdina á árinu.