Föstudagur 24. desember 1999

358. tbl. 3. árg.

Sælla að gefa en þiggja
Sælla að gefa en þiggja

Í stjórnmálaumræðunni virðist oft sem ákveðnir stjórnmálamenn telji sig hafa einkarétt á kærleikanum. Þetta á ekki síst við um þá sem hafa hallað sér til vinstri og vilja að ríkið hlutist til um hvers kyns samhjálp. Þeir sem styðja ekki skoðanir þessara stjórnmálamanna eru sakaðir um skort á samúð með þeim sem lakast standa. Það er þó varla góður mælikvarði á náungakærleik hversu fúsir menn eru til að láta aðra greiða skatta til samhjálparinnar. Hvað segir það um fólk ef það er tilbúið til að vera rausnarlegt á kostnað annarra? Ekki neitt. Það gleymist líka stundum að þær krónur sem ríkið tekur af fólki verða ekki notaðar í þá frjálsu samhjálp sem víða má finna í þjóðfélaginu. Það er oft bent á að mikil skattheimta dragi úr frumkvæði í atvinnulífinu. Þess er sjaldnar getið að háir skattar geta einnig skert möguleika fólks til þess að rétta náunganum hjálparhönd. Opinber velferðarkerfi gera vissulega mörgum gott en þau eru dýr og ósveigjanleg og geta lítt tekið tillit til ólíkra þarfa sem ólíkir einstaklingar hafa. Yfirburðir náungans, sem þekkir betur til en starfsmaður velferðarkerfisins, eru miklir að ekki sé minnst á nánustu vini og ættingja. Það blasir við að þessir aðilar vita betur hvenær og hvernig aðstoðar er þörf. Háir skattar geta hins vegar gert fólki erfitt fyrir og sú spurning er réttmæt hvort velferðarkerfi ríkisins hafi fríað fólk um of ábyrgð gagnvart náunganum. Getur verið að velferðarkerfið hafi dregið úr náungakærleikanum? Hin frjálsa samhjálp er engu að síður afar sýnileg nú á jólunum. Þeir eru ófáir sem leggja öðrum lið með ýmsu móti þessa dagana en vafalaust eru enn fleiri sem myndu óska þess að geta gert meira af slíku. Það er víst sælla að gefa en þiggja.

Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegrar hátíðar.